Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:15:14 (1268)

2001-11-07 14:15:14# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ýmsir telja að ef eitthvað geri það að verkum að Íslendingar gangi í Evrópusambandið þá sé það evran og mikilvægi þess að verða hluti af stærri gjaldmiðli. Davíð Oddsson telur að það samræmist ekki efnahagslegum hagsmunum Íslands. Þar er hann tiltölulega fáliðaður á báti vegna þess að kannanir sem hafa verið gerðar benda til þess að a.m.k. atvinnurekendur á Íslandi, að miklum meiri hluta, telji það mjög mikilvægt að Íslendingar geti tengst evrunni, að Íslendingar getin nýtt sér annan gjaldmiðil.

Aðrir gjaldmiðlar, eins og jen og dollari, skipta vissulega máli en það breytir ekki hinu að krónan verður áfram lítill gjaldmiðill, gjaldmiðill sem mun því miður, herra forseti, rýra samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og rýra lífskjör íslensku þjóðarinnar. Þetta eru auðvitað bitrar staðreyndir en staðreyndir samt sem við verðum að horfast í augu við og vinna út frá.