Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:16:25 (1269)

2001-11-07 14:16:25# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Minnst var á umræðuna í Danmörku, áður en Danir kusu um evruna og felldu aðild að henni. Það var athyglisvert, einmitt í ljósi þess að ekkert af því hefur síðan gerst í Danmörku sem hræðsluáróðurinn gekk út frá að mundi gerast ef Danir felldu. Þar hafa vextir ekki hækkað og hagkerfið tók enga dýfu þó að Danir tækju þessa ákvörðun.

Í Svíþjóð hefur þrýstingurinn farið af málinu, m.a. vegna þess að Danir felldu. Ný ríkisstjórn í Noregi hyggst ekki hreyfa þessi mál á nýhöfnu kjörtímabili og nýjustu fréttir frá Bretlandi benda til þess að ef eitthvað er þá fjarlægist Bretar á nýjan leik það að taka upp evruna. Það er helst hér uppi á Íslandi sem menn eru iðnir við kolann og reyna m.a. að nota óróleika í efnahagsmálum um þessar mundir til að þoka þessum málum eitthvað áfram og þá væntanlega í áttina að því að krónan fái ekki staðist og mögulega verðum við þá að ganga í Evrópusambandið til að geta tekið upp evru.

Þessar fyrirspurnir sem hér hafa verið á dagskrá eru auðvitað mjög athyglisvert innlegg í þessi mál, bæði spurningarnar og svörin.