Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:25:41 (1276)

2001-11-07 14:25:41# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu en ætla að halda mig við þá fyrirspurn sem hér er um að ræða. Ég held að það sé alveg sama hvað okkur finnst um Evrópusambandið eða myntbandalagið. Við stöndum samt sem áður frammi fyrir ákveðnum staðreyndum. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að íslensk stórfyrirtæki munu væntanlega sækja enn meira á erlendan fjármagnsmarkað og reyna að gera sig óháðari innlendum fjármagnsmarkaði vegna þess að erlendur fjármagnsmarkaður er einfaldlega ódýrari. Þetta eru kostir sem lítil fyrirtæki hafa ekki, m.a. flest fyrirtækin á landsbyggðinni. Halda menn að það geti staðist til lengdar að stýrivextir hér á landi séu 10,9% en þeir séu 7% í Noregi, séu 3,75% í evrulöndunum og 2% í Bandaríkjunum? Hafa menn trú á því að íslensk fyrirtæki standist þessa samkeppni til lengdar? (KLM: Hver stjórnar þessu landi?) Ég held að það sé mikilvægt að menn spyrji sig þessara spurninga. Mér finnst alveg óþarfi að hv. þm. sýni einhvern óróleika yfir því að þessar tölur séu nefndar. Þetta eru spurningar sem við öll stöndum frammi fyrir. Þetta er sá grundvöllur sem við þurfum að hafa í umræðunni og varðar hina stóru spurningu um hvort við viljum verða aðilar að þessu myntbandalagi eða ekki. Það eru spurningar sem við svörum ekki í dag. En við getum ekki flúið þennan raunveruleika.

Þess vegna fagna ég þessari umræðu. Ég tel hana vera mikilvæga. En ég get jafnframt sagt að ég er ekki tilbúinn til að taka þarna endanlega ákvörðun vegna þess að umræðan er ekki nægilega þroskuð. Við verðum að halda henni áfram og til þess að halda henni áfram verðum við að horfa framan í sannleikann, í stað þess að varpa honum bara aftur fyrir sig og láta sér fátt um finnast eins og ég tók eftir að fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem kemur ekki á óvart.