Virðisaukaskattur á bókum

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:28:19 (1277)

2001-11-07 14:28:19# 127. lþ. 24.2 fundur 95. mál: #A virðisaukaskattur á bókum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég verð kannski sakaður um að nota hér Albaníuaðferðina, að spyrja hæstv. menntmrh. um skattamál. Hins vegar vill svo til að málið snýst um skattlagning á menningu. Mönnum er væntanlega í fersku minni deilur sem upp komu þegar tekinn var upp virðisaukaskattur á ýmiss konar menningarstarfsemi, ekki síst vegna skattlagningar á bókaútgáfu. Það þótti ekki gott innlegg hjá sjálfri bókaþjóðinni að gera að sérstökum skattstofni slíka útgáfu bóka, tímarita, blaða o.s.frv.

Staðan er þannig núna, herra forseti, að slík starfsemi og reyndar mörg önnur menningarstarfsemi eða menningartengd starfsemi er skattlögð með 14% skattþrepi í virðisaukaskatti. Það gildir um áskrift að fjölmiðlum, blöðum, útvarpi, sjónvarpi. Það gildir um útgáfu tímarita, blaða og bóka á íslensku. Síðan er ákveðin menningarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti með öllu, svo sem aðgangseyrir að söfnum, kvikmyndum, leikhúsum, sala listamanna á eigin listaverkum í ákveðnum flokkum o.s.frv. Reyndar eru þarna ýmis jaðarsvæði, grá svæði og listamenn sem vinna hlið við hlið geta lent í því að annar greiðir engan skatt af sölu sinna verka en aðilinn við hliðina fullan skatt o.s.frv. En það er of langt mál að fara út í það.

Ég reisi þá spurningu til hæstv. menntmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því eða hvort það hafi eitthvað komið á dagskrá að virðisaukaskattur, t.d. á bókum, verði felldur niður á nýjan leik eða lækkaður, svipað og gert hefur verið í sumum nálægum löndum að undanförnu. Það má kannski segja að tvennt hafi sérstaklega orðið þess valdandi að ég ákvað að bera fram þessa spurningu. Það fyrra er auðvitað erfið staða þessarar menningarstarfsemi sem öllum ætti að vera kunnug. Það óttast mjög margir um framtíð hennar, alla vega þá hluta slíkrar útgáfu sem erfiðast eiga með að bjarga sér á markaðslegum forsendum.

Hið síðara er að hæstv. ríkisstjórn telur aðstæður þannig um þessar mundir að það sé mikið svigrúm fyrir skattalækkanir. Það er kunnara en frá þurfi að segja að gríðarlegur skattalækkunarpakki hefur einmitt verið á borðum hæstv. ríkisstjórnar undanfarnar vikur og nýlega verið kynntur. Ég taldi þar af leiðandi í ljósi þeirra frétta ástæðu til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort inni í þessum skattalækkunarpakka yrði eitthvað í þágu menningarstarfsemi í landinu.

Ég vona að hæstv. ráðherra geti þar komið með einhver jákvæð svör. Því verður varla trúað að staða hæstv. ráðherra sé svo veik í ríkisstjórninni eða þá að viljaleysi hans sé um að kenna að það eigi ekki að neinu leyti að nota skattalegar aðgerðir í þessu tilviki, úr því að það á að lækka hér skatta á annað borð, til að standa betur við bakið á mikilvægri menningarstarfsemi í landinu sem á undir högg að sækja.