Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:50:05 (1287)

2001-11-07 14:50:05# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að fagna því að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa vit á því að beygja örlítið frá þeirri leið sem hún mótaði á hátíðarfundinum forðum daga þegar menn ræddu eingöngu um hús. Ég fagna því mjög að hæstv. menntmrh. skuli hafa fundið það út að hægt væri að skilja þetta þannig að það ætti ekki við um að byggja bara hús heldur taka upp menningarlegt samstarf. Þetta er afar ánægjuleg beygja og ég vil nota þetta tækifæri til að fagna henni alveg sérstaklega vegna þess að við höfum séð og orðið vitni að því að hæstv. ráðherra, að vísu með afar góðri aðstoð hóps Austfirðinga, hefur fundið miklu betri lausn á þessu máli.

Ég verð að játa það, herra forseti, að ég hafði af því örlitlar áhyggjur þegar hátíðarfundurinn var haldinn að menn meintu eitthvað með þessum yfirlýsingum sínum. Ég verð að segja að það er fagnaðarefni að svo var ekki vegna þess að ég held að menningarstarf á landsbyggðinni þurfi í raun allt annað en fleiri hús. Í flestum byggðarlögum er sem betur fer nóg af húsum til þess að stunda margs konar menningarstarfsemi í. Þess vegna er miklu betur farið með opinbert fjármagn að einbeita sér að því að efla menninguna almennt í samræmi við aðstæður á hverjum stað.