Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:52:50 (1289)

2001-11-07 14:52:50# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu um menningu á landinu og þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hafði fyrir tveimur árum síðan eða þremur um hvernig mætti koma meiri umræðu af stað um menningu almennt.

Ég held einmitt að það markmið ríkisstjórnarinnar hafi tekist með ágætum að koma umræðu um menningu um allt land á flugferð þannig að nú eru sveitarfélög og ríki farin að vinna saman að því að koma upp menningarsetrum víðs vegar um landið. Það er ekki verið að tala um eitt hús heldur um alls konar staði sem síðan hafa tengst hugmyndum um menningartengda ferðaþjónustu.

Við þekkjum fjölmörg dæmi. Ég held að Vestmanneyingar sem koma hér úrillir eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og tala um kosningatrikk ættu að líta til Vestmannaeyja og sjá hvað búið er að gera í Vestmannaeyjum. Óvíða á landinu hefur meira verið gert í menningarmálum. Telja má upp galdrasafn á Vestfjörðum, Kútter Harald, Vesturfarasetur, Duushús í Keflavík o.fl. Þetta er glæsilegur listi sem mætti lesa hér upp og gæti það tekið margar mínútur.