Samstarf við Microsoft

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:58:49 (1292)

2001-11-07 14:58:49# 127. lþ. 24.4 fundur 220. mál: #A samstarf við Microsoft# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í janúar árið 1999 gáfu ríkisstjórn Íslands og fyrirtækið Microsoft út sameiginlega tilkynningu þess efnis að framleiða ætti íslenska útgáfu af Windows 98. Á móti var því heitið að ríkisstjórnin mundi gera ráðstafanir til að draga úr ólöglegri notkun hugbúnaðar á Íslandi. Litið var á þessa ráðstöfun sem lið í því að tryggja almenningi aðgang að íslenskum hugbúnaði og fram kom að ríkisstjórnin, sem var að vonum afar ánægð með samninginn, vænti áframhaldandi samstarfs eins og segir í fréttatilkynningu frá þeim tíma. Er þá komið að fyrirspurn minni, herra forseti, sem er þessi:

Hefur orðið framhald á samstarfi við Microsoft eftir að samningur var gerður við fyrirtækið um íslenskun á stýrikerfinu Windows 98?

Staðan er sú að síðan þessi samningur var gerður hafa líklega komið út fjögur ný stýrikerfi frá Microsoft á ýmsum tungumálum, en þó ekkert á íslensku. Út er komið Windows 98 SE sem kom líka árið 1999 og Windows ME sem kom í upphafi árs 2000. Windows 2000 kom líka út árið 2000. Við notum það m.a. í þinginu. Og Windows XP kom út núna um daginn.

Það er mikilvægt fyrir íslenska tungu eins og fram kom í umræðum um þetta mál á sínum tíma að hægt sé að tjá allt sem tjá þarf á íslensku og að nútíminn og framtíðin og íslenskan eigi samleið. Því held ég að við höfum flest fagnað þeim áfanga sem fékkst við íslenskun á Windows 98. En Windows 98 úreldist og fólk tekur upp nýrri stýrikerfi þó á ensku séu. Svo eigum við auðvitað alltaf kost líka á Linux og Macintosh sem hafa allan tímann verið á íslensku.

En nú erum við tala um þennan Microsoft-samning og útbreiðslu Microsoft-afurða hér á markaði. Það kom fram í fréttatilkynningunni sem hér er vitnað til að þeim Microsoft-mönnum fannst það ánægjuleg tilhugsun að Windows 98 yrði framlag til menningar Íslands í framtíðinni, eins og þar segir.

Herra forseti. Þess vegna er ástæða til að spyrja: Í hverju átti framhaldið að vera fólgið að mati ráðherra? Hefur frekara samstarf átt sér stað og þá um hvað? Var það um frekari íslenskun á stýrikerfum eða hefur það eingöngu verið um upprætingu á ólöglegum hugbúnaði?