Samstarf við Microsoft

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:06:20 (1294)

2001-11-07 15:06:20# 127. lþ. 24.4 fundur 220. mál: #A samstarf við Microsoft# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt að þessu samstarfi sé haldið áfram eins og hæstv. ráðherra lýsir hér. Sannarlega hefðum við kannski viljað sjá það stórstígara. Við hefðum viljað sjá að Microsoft tæki virkari þátt í þýðingu þeirra stýriforrita og þess hugbúnaðar sem við erum að nota á Íslandi. Það er mjög mikið notað af búnaði Microsofts hér.

Þegar hæstv. ráðherra segir að Microsoft fái ekki fjárstuðning frá íslenskum stjórnvöldum til að vinna þetta verk vil ég aftur rifja upp að það var gerður samningur um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að upprættur yrði hér ólöglegur hugbúnaður. Það hlýtur að muna einhverju fyrir fyrirtækið ef árangur næst á því sviði vegna þess að miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir fyrir u.þ.b. tveimur árum virtist sem Íslendingar færu býsna frjálslega með höfundarrétt þegar um er að ræða tölvuforrit og slíka hluti. Væntanlega fær því fyrirtækið Microsoft einnig eitthvað út úr þessum samningi. Mér finnst, eins og ég sagði áðan, mjög mikilvægt að þessu samstarfi verði haldið áfram. Mér finnst líka mjög mikilvægt það sem verið er að gera varðandi tungutækni og það sem unnið er til þess að íslenskan geti verið hluti af þeirri þróun sem á sér stað varðandi tölvur og fjarskipti og allan þann búnað sem til þarf.

En eins og ég segi, herra forseti, ég hafði kannski vænst þess að samstarfið við Microsoft mundi innihalda eitthvað sem væri handfastara varðandi þróun hugbúnaðar þess fyrirtækis. Kannski eigum við eftir að sjá eitthvað bitastæðara á næstunni en allt samstarf er þó til góðs.