Samstarf við Microsoft

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:08:21 (1295)

2001-11-07 15:08:21# 127. lþ. 24.4 fundur 220. mál: #A samstarf við Microsoft# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og þingmenn vita hefur þessi atvinnugrein sem Microsoft er í fararbroddi fyrir gengið í gegnum miklar þrengingar og það hafa orðið þar miklar breytingar á undanförnum mánuðum og missirum. Engu að síður er áhugi fyrir hendi hjá fyrirtækinu að eiga þetta samstarf við okkur og við leggjum rækt við að halda því áfram.

Mér finnst í sjálfu sér svolítið einkennilegt að hafa gert samning við fyrirtæki um að uppræta ólöglega starfsemi í landinu eins og það sé ekki sjálfsagt að Íslendingar virði höfundarrétt á þessu sviði og séu ekki að stunda ólögmæta starfsemi. En þetta var hluti af því samkomulagi sem við gerðum og var liður í því að fyrirtækið hafði þennan áhuga á að koma til samstarfs við okkur.

Einnig hafa fyrirtæki á þessu sviði mikinn áhuga á samstarfi við Íslendinga vegna þess hve mikil tölvunotkunin er hér. Við höfum verið að gera samninga um aðgang að rafrænum gagnabönkum og tímaritum og erum í fararbroddi við gerð landssamninga og landsaðgangs að þessum gagnagrunnum sem stafar m.a. af því að við höfum það orð á okkur að við séum mjög tæknivæddir og hér sé mikil kunnátta á þessu sviði og mikil nýting. Þetta eigum við að nýta okkur í samskiptum við öll þessi fyrirtæki, jafnt Microsoft sem önnur.