Skimun fyrir riðu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:21:11 (1300)

2001-11-07 15:21:11# 127. lþ. 24.5 fundur 153. mál: #A skimun fyrir riðu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hvað varðar fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þá er það alveg klárt að meðan Framsfl. hefur afl og áræði, fer með landbúnaðarmálin og utanríkismálin, verður ekkert gefið eftir í þessum efnum. Við munum fylgja þeim þjóðum sem strangastar eru. Við eigum þrengsta nálaraugað í gegnum GATT-samningana. Við höfum sérstöðu í þessu landi sem við megum ekki raska. Nálaraugað verður því þröngt áfram. Í nýrri vegferð sem nú er að hefjast í WTO-samningum munum við halda málflutningi okkar fram eins og við höfum gert, þ.e. að stuðst verði við ströngustu reglur sem okkur hentar þannig að við gerumst aldrei aðilar að hinum innri markaði sem hv. þm. spurði um.

Hvað innflutning á kjötvörum varðar veit ég ekki til að neitt hafi verið flutt inn af kjöti í sjálfu sér síðan umræðan um kúariðuna kom upp og írsku nautalundirnar sem hér urðu frægar. Við stöndum samt gagnvart því með þá samninga í höndunum sem við gerðum. Það er skoðað í hverju tilfelli og verður gert af þeirri vandvirkni sem ber að bera.

Varðandi það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði þá er auðvitað rétt hjá henni að menn munu ekkert fara á neinum fullyrðingum. Við verðum gagnvart málefnum okkar að standa á vísindum, alveg eins og við gerum kröfu um vísindi í sambandi við WTO-samningana o.s.frv. Það er það sem gildir. Þess vegna eru rannsóknir eins og fram hafa farið á Keldum á dýrasjúkdómum mikilvægari á morgun en í gær til þess að verja íslenska hagsmuni og til þess að gefa íslenskum landbúnaði þau sóknarfæri sem hann vissulega á í breyttri veröld.