Starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:33:59 (1305)

2001-11-07 15:33:59# 127. lþ. 24.6 fundur 187. mál: #A starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka það fram að þau verkefni sem verið er að vinna í skógrækt eru mjög mikilvæg og til mikils sóma fyrir Ísland hve mikið er gert á þeim vettvangi.

Ég vil aðeins vegna orða hæstv. landbrh. segja að hann ber auðvitað ábyrgð á tillögum úr sínu ráðuneyti. (Gripið fram í.) En við megum ekki gleyma því að verkefnið var upphaflega ætlað til að styðja við hinar dreifðu byggðir í landinu og styrkja þann landbúnað sem fyrir er. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Ég er ekki að gera lítið úr starfi áhugamannafélaga. Þau eru mjög mikilvæg. Þau fá líka styrki frá ríkinu og eiga miklu meiri aðgang að fjármagni í gegnum einstaklinga. Ég er sannfærð um að þau muni njóta góðs af Suðurlandsskógaverkefnum en við megum heldur ekki gleyma því að það eru mjög mikil verkefni á vegum skógræktarfélaganna bæði í Árnes- og Rangárvallasýslu. Ég veit ekki annað en það verði algjörlega óbreytt varðandi Austur-Skaftafellssýslu í þessu verkefni.