Starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:37:36 (1307)

2001-11-07 15:37:36# 127. lþ. 24.6 fundur 187. mál: #A starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er hárétt hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að ég skorast ekkert undan tillögum sem ég legg fram. Þær koma ekki allar hér fram og líta ekki allar dagsins ljós. Þetta er samvinna tveggja flokka sem fara með málin.

Ég vil segja við hv. þm. Kristján Pálsson: Það er auðvitað útúrsnúningur, fáránlegur málflutningur að segja að fjárln. útvegi peninga. Hér verður samstaða og fjárlög eru sett á Alþingi Íslendinga. Það er Alþingi Íslendinga sem setur fjárlögin. Það fer með fjárlagavaldið. Hv. þm. skal þá skoða hvaða tillögur komast fram og hverjar ekki, hvar þær stranda o.s.frv. Það er rétt að skoða það áður en ásakanir eru settar fram eins og hann gerir hér. Það er Alþingi Íslendinga sem setur fjárlögin. Það hefur verið þessum verkefnum vinveitt og staðið mjög nærri þeim hugmyndum sem landbrh. hefur.

En það er tveggja flokka stjórn sem fer með málefnin. Við erum annar hlutinn af því, Framsfl. Sjálfstfl. er hinn. Það er gott samstarf á milli þessara flokka. Við sjáum ekki alla drauma rætast í fjárlögum. Við þurfum að spara og draga úr ríkisútgjöldum. Það er mikið verkefni sem hv. þm. hlýtur að þekkja, bæði í fjárln. og í þingflokki sínum. Ásökunum hans í minn garð vísa ég því til föðurhúsanna.