Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:41:30 (1309)

2001-11-07 15:41:30# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin var þannig: ,,Sýna vísindalegar niðurstöður fram á að einkarekin sjúkrahús eða læknastofur veiti almennt lakari þjónustu eða skili almennt lakari verkum en sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar opinberra aðila?``

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um að landlæknir skuli hafa faglegt eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Landlæknir hefur auk þess eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustunnar og fylgjast fulltrúar embættisins reglubundið með starfsemi allra heilbrigðisstofnana. Eitt af lögbundnum hlutverkum landlæknis er jafnframt að sinna kvörtunum eða kærum sem varða samskipti almennings og heilbrigðisstétta. Árlega berst nokkur fjöldi kvartana en fram til þessa hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að sé kvartað meira yfir starfsemi á einkareknum læknastofnum en heilbrigðisstofnunum hins opinbera.

Allar opinberar heilbrigðisstofnanir senda reglulega tölulegar upplýsingar til landlæknisembættisins sem vinnur úr þeim heilbrigðistölfræði og margs konar fróðleik um heilbrigðisþjónustuna. Nú er unnið að því að styrkja heilbrigðistölfræðisvið landlæknisembættisins til upplýsingasöfnunar og úrvinnslu gagna um heilbrigðismál. Þar er m.a. verið að undirbúa gerð gagnagrunns um einkareknar læknastofur. Fram til þessa hafa ekki legið fyrir tölulegar upplýsingar um starfsemi þeirra aðrar en þær sem Tryggingastofnun ríkisins færir í gegnum samninga og samskipti við viðkomandi lækna.

Loks má nefna að nýlega hefur verið ráðinn starfsmaður til landlæknisembættisins til að skilgreina hvaða upplýsingar allar heilbrigðisstofnanir eigi að senda til embættisins um gæði heilbrigðisþjónustunnar.

Hvað snertir gæði þjónustunnar á hjúkrunarheimilum hefur um nokkurt skeið verið gert víðtækt mat á heilsufari og þjónustu íbúa með svokölluðu RAI-mati sem nú er jafnframt lagt til grundvallar að hluta til við fjármögnun heimilanna. RAI-gagnagrunnurinn felur í sér viðamiklar upplýsingar um aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum á Íslandi og úr þeim upplýsingum má einnig fá vísbendingar um gæði þjónustunnar.

Eins og ljóst má vera af þessum orðum liggja ekki fyrir nægilega aðgengilegar og samanburðarhæfar upplýsingar um gæði heilbrigðisþjónustunnar á einkareknum læknastofum, sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Hins vegar er verið að vinna að því að hægt verði að bera saman og meta starfsemi á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar á faglegum grunni.

Í öðru lagi er spurt: ,,Sýna fjárhagslegar niðurstöður fram á að heildarkostnaður við tiltekin verkefni heilbrigðisþjónustu sé almennt hærri í einkareknum sjúkrahúsum en opinberum þegar tekið hefur verið tillit til langtímakostnaðar við fjármögnun fasteigna, búnaðar og tækjakosts sem til þarf?``

Því er til að svara að kostnaðargreining í heilbrigðisþjónustu er mjög flókið verkefni. Á undanförnum árum hefur Landspítali -- háskólasjúkrahús unnið mikið starf í DRG-kostnaðargreiningu á þjónustu spítalans. Þegar kostnaðargreining á sjúkdómstilfellum liggur fyrir hjá Landspítalanum munu skapast möguleikar til víðtæks samanburðar við aðrar stofnanir sem tekið hafa upp DRG-kostnaðargreiningu á heildarkostnaði við tiltekin verkefni.

Margir hafa áhyggjur af því að greiðslukerfi sem byggir á sjúkdómstilfellum leiði til þess að gæði þjónustunnar minnki þar sem aðaláherslan verði lögð á að halda kostnaði í lágmarki. En ýmsar rannsóknir frá Bandaríkjunum sýna hið gagnstæða, eða að eftir að DRG-kerfin hafi komist á hafi gæði sjúkrahússþjónustu oft aukist.

Rannsóknir í Svíþjóð sýna einnig að gæði þjónustu versnuðu ekki í kjölfar þess að DRG-kerfið var tekið í notkun og sjúklingar fengu jafngóða meðferð og fyrir innleiðingu kerfisins. Hinu ber þó ekki að leyna að stjórnunarkostnaður við flókin greiðslukerfi sem byggjast á sjúkdómstilfellum er hár, bæði fyrir þann sem veitir féð og fyrir þann sem veitir sjúkrahússþjónustuna.

Það liggja ekki fyrir neinar athuganir á langtímakostnaði við fjármögnun fasteigna, búnaðar og tækjakosts sem þarf til heilbrigðisþjónustu. Í nýsamþykktri heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er hins vegar sett fram það markmið að árlega verði varið 3--5% af fjárframlögum til heilbrigðisstofnunar til kaupa og endurnýjunar á tölvum, lækningatækjum og öðrum tækjabúnaði.

Hvað varðar yfirlýsingar fyrirrennara míns á hv. Alþingi vil ég segja það eitt að heilbrigðisþjónustan samanstendur af sjúkrahússþjónustu sem rekin er af hinu opinbera og einkaþjónustu sem er rekin úti í bæ, ef svo má kalla, og Tryggingastofnun ríkisins hefur séð um samninga við þá aðila sem einkaþjónustuna reka. Ég hef lýst því yfir að ég tel að þetta fyrirkomulag sé að mörgu leyti heppilegt og þetta geti lifað hlið við hlið. Hins vegar hef ég skýlaust lýst því yfir að ég vil ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi í landinu að því leyti að annað sé fyrir þá sem betur eru settir og hitt fyrir þá sem verr eru settir. Það er grundvallarskoðun af minni hálfu.