Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:49:23 (1312)

2001-11-07 15:49:23# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Árna R. Árnasonar hljóðar upp á að finna rök fyrir aukinni einkavæðingu í heilsugæslu og rekstri sjúkrahúsa.

Málið snýst bara ekki um það hvort verkin séu vel unnin. Við treystum öllu þessu fólki til að gera vel. Hvort sem það er í einkarekstri eða í opinberum rekstri munu allir starfsmenn reyna að gera vel. En hitt verð ég að taka undir, þau orð hæstv. ráðherra, að hér er ekki ætlunin né vilji til að byggja upp tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem flokkað er eftir tekjum og aðbúnaði fólks hvers konar þjónustu það hefur aðgang að. En einkarekin heilbrigðisþjónusta, með rétti til þess að senda reikninginn svo á ríkið, er afar slæm ráðstöfun. Okkur ber að standa vörð um heilbrigðisþjónustu landsins, herra forseti.