Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:50:45 (1313)

2001-11-07 15:50:45# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. áðan um hver grundvallarskoðun hans er varðandi heilsugæsluna í landinu og allt heilbrigðiskerfið, að allir landsmenn hafi jafnan rétt til heilsugæslunnar og þessarar þjónustu sem er okkur öllum nauðsynleg.

Það má velta því fyrir sér hversu mörg sjúkrahús er hægt að starfrækja í landinu. Það vantaði sjúklinga á sínum tíma og það voru helstu rökin fyrir því að koma á numerus clausus í læknadeild í Háskóla Íslands. Það þótti ekki nógu mikið til af sjúklingum fyrir læknastúdentana, nemana í læknadeildinni. Þess vegna var ekki hægt að hafa þá eins marga og þeir vildu. Markaðurinn er heldur ekki nógu mikill fyrir fjölda einkarekinna sjúkrahúsa.