Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:52:02 (1314)

2001-11-07 15:52:02# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við þessum tveimur spurningum í fyrirspurninni.

En vegna orða nokkurra hv. þm. sem hafa lagt orð í belg, og ég þakka vissulega fyrir áhugann á málinu, þá vil ég geta þess að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leita allra leiða til þess að fólk fái heilbrigðisþjónustu þegar hennar er þörf. Ég tel upplýsingar um fjölmenna biðlista vera okkur til vansa. Meðan svo stendur ættum við ekki að deila mikið um hvort við ættum að banna einhverjum að fá þjónustuna þar sem hún fæst.

Það er svo í dag, herra forseti, að nokkrar læknisgreinar geta sent reikninga á ríkissjóð án þess að spyrja kóng eða prest. Það er svo. Nokkrum öðrum er meinað um að setja upp eigin læknastofur á þeirri forsendu að slíkar stöður séu ekki innan ríkisrekinna stofnana. Að því leyti er læknum mismunað eftir því hvaða sérgreinar þeir hafa valið sér að menntast til. Það er ósköp einfalt. Það er mismunun. Það er líka svo, ef við lítum á flokkun biðista eftir greinum, að sjúklingum er mismunað.

Þá verður að geta þess, herra forseti, að numerus clausus í læknadeild Háskóla Íslands, sem er eina deildin sem hefur slík skilyrði, að eigin ráði og eigin ákvörðun, hefur orðið til þess að lækna skortir í nokkrum greinum. Fyrir liggja klárar upplýsingar um að reglur og fyrirmæli stjórnvalda sem gilda um heimilislækna hafa leitt til þess að ungir læknanemar kjósa að nema aðrar sérgreinar. Okkur skortir heimilislækna. Það tel ég megi rekja til þess að við höfum verið of stíf á gormumum í að reyna að reka lækna inn á ríkisreknar stofnanir og meina þeim að starfa á eigin vegum þar sem þeir kjósa.

Ég tel við eigum að viðurkenna þá staðreynd að á Íslandi starfa bæði ríkisreknar og einkareknar heilbrigðisstofnanir. Við eigum ekki að meina þeim að taka framförum eins og í öðrum greinum þjóðlífsins.