Reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:56:58 (1316)

2001-11-07 15:56:58# 127. lþ. 24.8 fundur 231. mál: #A reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SI
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingvarsdóttir):

Herra forseti. 18. gr. læknalaganna fjallar m.a. um þegar meðferð heilbrigðisstarfsmanns hefur óvæntan skaða í för með sér og þegar óvænt dauðsfall verður á heilbrigðisstofnun sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilvika við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms.

Með breytingu á lögum nr. 68/1998, sem öðluðust gildi 1. jan. 1999, er kveðið á um reglugerð sem hæstv. heilbrrh. skuli setja um viðbrögð og rannsókn mála. Hér er spurt um þá reglugerð. Fyrirmæli 18. gr. læknalaga eru býsna ljós og unnið í samræmi við þá lagagrein en sú reglugerð sem gert er ráð fyrir að hæstv. heilbrrh. setji hefur ekki enn séð dagsins ljós og er það bagalegt.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis létust ellefu manns á undanförnum fimm árum af ástæðum sem að hluta eða öllu leyti má rekja til mistaka í heilbrigðisþjónustunni. Oftast, en þó ekki í öllum tilvikum, koma læknar þar við sögu. Þessi dauðsföll eru auðvitað alvarlegustu afleiðingar mistaka í heilbrigðisþjónustunni. En of mörg dæmi eru einnig um varanlegar alvarlegar afleiðingar þó ekki leiði þau mistök til dauðsfalla.

Reynsla nágrannalanda, svo sem Bretlands og Norðurlanda þar sem lög eru með svipuðum ákvæðum og hér, er sú að aðeins hluti þeirra tilvika þar sem óhöpp verða eru tilkynnt og aðeins í stöku tilfellum fá stjórnendur upplýsingar um atvikin. Sem dæmi má nefna að mistök í lyfjagjöf eru talin vera verulega vanskráð. Öll erum við mannleg og okkur getur orðið á. En mistök meðal lækna og annarra starfsmanna heilbrigðisstofnananna vega oft og tíðum það þungt að beina þarf sjónum sérstaklega að þeim.

Mér finnst ekki óeðlilegt að ákveðið vinnuferli, jafnvel með ákveðinni rannsóknarnefnd fagaðila, fari af stað þar sem kafað er í hvert mál af þessum toga, fundið út hvar mistökin liggja og lagðar fram tillögur til að koma í veg fyrir að slíkt geti hent aftur.

Það hefur þó nokkuð verið horft til flugmálayfirvalda upp á síðkastið. Þar hafa rannsóknarnefndir m.a. það hlutverk að kanna óhappatilvik eða þau tilvik sem hefðu getað leitt til óhapps. Þær rannsóknarnefndir sinna ekki rannsóknum sem leitt gætu til refsingar á neinn hátt og upplýsingar um þannig tilvik hafa skilað sé mun betur en þar sem refsivöndur vofir yfir.

Hvert tjónamál í heilbrigðisgeiranum hlýtur einnig að vega þungt þó tilfinningaþátturinn og þær alvarlegu afleiðingar sem einstaklingar þurfa oft á tíðum að takast á við vegna mistaka í heilbrigðisþjónustunni vegi að sjálfsögðu mun þyngra.