Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:32:08 (1323)

2001-11-08 10:32:08# 127. lþ. 25.91 fundur 111#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og kunnugt er er kjaradeila sjúkraliða og viðsemjenda þeirra enn óleyst og er ástandið vægast sagt orðið mjög alvarlegt víða á sjúkrastofnunum. Auk verkfallsaðgerðanna hafa á annað hundrað sjúkraliða sagt upp störfum að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands, sem kom fyrir þingflokk Samfylkingarinnar í gær til að skýra stöðu mála.

Nú hefur Sjúkraliðafélagið enn boðað til þriggja verkfalla, í þetta sinn allsherjarverkfalla sem ná því til allra og mun þeirra gæta allt fram í desembermánuð. Alls munu um 1.200 sjúkraliðar leggja niður störf í þessum verkföllum hjá 26 vinnuveitendum og hefst það fyrsta á mánudaginn nk. ef ekki verður samið fyrir þann tíma.

Verkföllin hafa hingað til haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuna eins og gefur að skilja. Deildum hefur verið lokað og lágmarksþjónusta veitt þar sem hún á annað borð er veitt.

Nú geri ég mér grein fyrir því, herra forseti, að kjaradeilur verða ekki leystar í sölum Alþingis eða á nefndarfundum. Það er hins vegar mikilvægt að fulltrúar á löggjafarsamkundunni fylgist vel með því alvarlega ástandi sem er að skapast vegna kjaradeilna sjúkraliða og því beinlínis skylda okkar að verða við því að hlusta á sjónarmið þeirra sem eiga í deilunni sé eftir því leitað.

Það vakti því óneitanlega furðu þegar upplýst var á þingflokksfundi Samfylkingarinnar í gær að Sjúkraliðafélag Íslands hefði skrifað hv. heilbr.- og trn. Alþingis bréf þann 14. maí sl. --- ég endurtek 14. maí --- og óskað eftir því að fá að skýra sjónarmið sín fyrir nefndinni á stöðu mála, en enn hefur nefndin ekki orðið við þessari sjálfsögðu beiðni að sögn formanns Sjúkraliðafélagsins. Því vil ég spyrja, herra forseti, hv. starfandi formann heilbr.- og trn. hverju þetta sætir og jafnframt lýsa furðu minni yfir þessu viðmóti. Þingflokkur Samfylkingarinnar fór reyndar fram á það við hv. heilbr.- og trn. í gær að hún kallaði sjúkraliða nú þegar fyrir nefndina til að skýra mál sitt, enda með öllu óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið orðið við slíkri bón.

Formaður heilbr.- og trn. er erlendis en vegna alvöru málsins teljum við mikilvægt að nefndin kalli slíkan fund saman sem fyrst þótt ekki sé nema til að hlusta á mál sjúkraliða. Slíkur fundur gæti aldrei orðið til að spilla fyrir framþróun kjaradeilunnar heldur þvert á móti, því að sinnuleysi af því tagi sem hv. heilbr.- og trn. hefur sýnt þessari beiðni sjúkraliða er með öllu ólíðandi.