Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:39:08 (1328)

2001-11-08 10:39:08# 127. lþ. 25.91 fundur 111#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted er ekki öfundsverð af því að taka að sér það hlutverk sem hún tekur í dag. Formaðurinn er fjarverandi, varaformaðurinn er fjarverandi og það er hún sem í raun bregst við fyrir hönd þeirra fyrir að hafa ekki tekið á málinu sem hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni finnst svo eðlilegt. Hann talaði á undan mér.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu, ekki síst viðbrögðum hans og almennum viðbrögðum stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Hvað telur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að Alþingi standi fyrir? Er það eingöngu lagasetning, ákvarðanataka með lögum og stefnumörkun þar með? Við erum alltaf að benda á það að á Alþingi fer fram mjög mikilvægur þáttur sem er samfélagsumræðan og ég veit ekki betur en að þingmenn fari um allt land, ferðist um kjördæmi sín. Til hvers? Til þess að hlusta á viðhorf fólksins í grasrótinni og bera þau hingað inn og endurtaka þau hér til að við vitum hvert þarf að stefna.

Alltaf þegar kjaradeila er uppi og umræða er tekin í þessum sal, sem er eðlileg og sjálfsögð, fáum við í stjórnarandstöðunni nákvæmlega sömu viðbrögðin. Það er ekki hægt að leysa þessi mál í þessum sal. Til hvers að koma með þessa umræðu hingað? Málið er í farvegi úti í samfélaginu, þó að sá farvegur hafi tekið tvö ár eins og hefur gerst í sumum tilfellum.

Auðvitað er mjög gott að núna þegar Samfylkingin hefur skrifað bréf og hefur tekið málið til umræðu í upphafi fundar skuli koma í ljós að á næsta fundi verði hlustað á sjúkraliða.

Viðhorf mitt, hæstv. forseti, er að nefndir þingsins eigi að hlusta á þá sem óska eftir að koma á fund. Óski stjórn eða kjaranefnd sjúkraliða þess, á að verða við því vegna þess að málið er stórt og mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið í landinu.