Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:41:25 (1329)

2001-11-08 10:41:25# 127. lþ. 25.91 fundur 111#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hefur margsinnis gerst þegar uppi hafa verið erfiðar kringumstæður á sjúkrahúsunum að heilbr.- og trn. hafi tekið það til umræðu. Ég veit allt um það því ég var einu sinni sjálfur formaður heilbr.- og trn. og það gerðist oft að við tókum til umræðu kringumstæður af þessu tagi, t.d. lokanir deilda og þegar við blasti að loka þyrfti deildum vegna fjárskorts.

Nú er uppi ákaflega alvarleg staða á sjúkrahúsunum. Hún felst í því að 180 sjúkraliðar hafa sagt upp störfum. Hún felst í því að fram undan eru verkföll. Hún felst í því að ekki er alveg ljóst hvort hægt sé að halda starfsemi sjúkrahúsanna óbreyttri nema þessi deila leysist. Til hvers erum við, fulltrúar fólksins í landinu? Erum við ekki til þess að leggja okkar af mörkum til að leysa deilur af þessu tagi? Hvað er að því að fulltrúar þessa hóps sem beittur er miklum rangindum fái að koma til fundar við heilbr.- og trn. sem er fagnefnd okkar til þess að skýra þessi sjónarmið? Það er ekkert af því.

Það er svo rangt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að nú þegar hafi verið gerð boð fyrir sjúkraliða og þeim heimilað að koma til þess að viðra sjónarmið sín. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Sjúkraliðar hafa fengið leyfi allra náðarsamlegast hjá meiri hlutanum til þess að koma til fundar við nefndina en samkvæmt því sem kom fram í máli formanns sjúkraliða á fundi Samfylkingarinnar í gær þá mega þeir ekki ræða um kjaramál sín. Það er nákvæmlega það sem þetta fólk vill fá að gera og það er með ólíkindum ef þingið ætlar ekki að leyfa hópi af þessu tagi að koma til þess að viðra viðhorf sín til ákaflega erfiðrar deilu.

Herra forseti. Mér sýnist sem meiri hlutinn sé ekki að leggja sitt þunga lóð á vogarskálarnar til þess að leysa þessa deilu. Mér liggur við að segja, herra forseti, að þetta stappi nærri því að settur sé múll á heila starfsstétt. Það getum við auðvitað ekki liðið í þessum sölum.