Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:43:35 (1330)

2001-11-08 10:43:35# 127. lþ. 25.91 fundur 111#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að búið sé að ákveða að Sjúkraliðafélagið verði kallað til fundar. Ég vil ítreka alvöru málsins. Allsherjarverkfallahrina hefst strax á mánudaginn og þess vegna lýsi ég furðu minni á því að sjúkraliðar hafi ekki verið kallaðir fyrr til fundar við nefndina því að varla getur það orðið til þess að spilla fyrir heldur þvert á móti hefur það komið fram hjá formanni Sjúkraliðafélagsins að þær eru mjög undrandi yfir því að ekki skuli hafa verið vilji fyrir því hjá hv. heilbr.- og trn. fyrr að ræða málin innan þeirrar nefndar því að beiðnin kom fram fyrir fimm mánuðum.

Ég vil líka segja, herra forseti, að ég er algerlega ósammála hv. formanni þingflokks Framsfl., Kristni H. Gunnarssyni, um að málið sé ekki á borði heilbr.- og trn. Ástandið er mjög alvarlegt á sjúkrastofnunum. Er það ekki vandamál sem hv. heilbr.- og trn. þarf að hafa áhyggjur af? Að minnsta kosti sá landlæknir ástæðu til þess um miðjan októbermánuð að kalla forustu sjúkraliða á fund sinn og heyra þau sjónarmið sem þær höfðu fram að færa í deilunni þó ekki væri nema vegna þess, eins og hér hefur fram komið, að hátt á annað hundrað sjúkraliðar hafa sagt upp störfum vegna óánægju með kjör og starfskilyrði sín sem vissulega er mikið áhyggjuefni fyrir heilbrigðiskerfið allt saman. Burt séð frá þessu verkfalli, herra forseti, þá er mjög mikið áhyggjuefni, að fjöldaflótti sé að eiga sér stað úr þessari stétt og það mun geta haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið í heild ef ekki er gripið í taumana.