Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:54:55 (1335)

2001-11-08 10:54:55# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Frv. sem hér um ræðir geri ég út af fyrir sig ekki miklar athugasemdir við. En það sem mér hefur fundist athyglisvert í þessari skýrslu sem hér er lögð fram, eins og þeirri síðustu, eru þau fylgiskjöl sem með henni fylgja. Mér finnst satt að segja, herra forseti, að hún hefði átt skilið ítarlegri umfjöllun af hálfu ráðherra en kom fram í framsöguræðu hennar áðan.

Þessi skýrsla er vel unnin og hún er um margt til fyrirmyndar og mjög sérstök að því leyti að hér er farið ítarlega yfir alla starfsemi Fjármálaeftirlitsins á árinu og athugasemdir og ábendingar eru þar settar fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins sem eru mjög athyglisverðar. Það hefði verið full ástæða til að hæstv. ráðherra hefði fjallað meira um þær og sagt álit sitt á þeim vegna þess að ýmsar athugasemdir sem þarna koma fram eru nokkuð alvarlegar og krefjast umfjöllunar á Alþingi, ekki síst líka í ljósi þess sem fram hefur komið hjá forstjóra Fjármálaeftirlitsins, að líklegt sé að einhverjar fjármálastofanir lendi í verulegum erfiðleikum á næstunni, eins og fram kom hjá honum nýlega. Hef ég reyndar lagt fram fyrirspurnir til ráðherra sem ráðherra hefur ekki enn svarað. Þær hljóta að koma hér í hús innan tíðar. Þær snerta einmitt tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta einmitt í ljósi þessara ummæla forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Það er nauðsynlegt að fá fram hvort ráðherrann sé sammála því mati sem fram kom hjá forstjóranum um þessa og ýmsa aðra hluti, eins varðandi eiginfjárstöðu banka og sparisjóða, sem ljóst er af ummælum forstjóra Fjármálaeftirlitsins að er ekki nægjanlega sterk til þess að mæta hugsanlegum skakkaföllum sem kynnu að verða á fjármálamarkaðnum.

Ef ég fer fyrst í efnisatriði frv. vekur athygli álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila sem stendur undir kostnaði við að reka Fjármálaeftirlitið. Ég tek raunar ekki undir ýmislegt sem fram kemur í áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila vegna þess að Fjármálaeftirlitið er stofnun líkt og Samkeppnisstofnun sem við eigum að hlúa mjög vel að vegna þess að þetta eru stofnanir sem gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki í þjóðfélaginu við eftirlit með atvinnurekstri og fjármálastarfsemi.

Samt vekur athygli það sem fram kemur í skýrslu eftirlitsskyldu aðilanna um launakostnað og ferðakostnað á bls. 10 og 11. Þetta eru athugasemdir sem voru gerðar líka á síðasta þingi af þessum sömu aðilum. Eftir því sem ég skil best þá ákveður ráðherra stjórnarlaun þeirra sem sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Og ég deili með eftirlitsskyldu aðilunum þeim athugasemdum sem þeir gera við launakostnað. Mér finnst ansi vel í lagt að greiða eigi rúmlega 6 millj. á árinu 2002 í launakostnað til þriggja stjórnarmanna og þriggja til vara. Ef þeir fá jafnt, líka varamennirnir, þá erum við að tala um 85 þús. kr. á mánuði sem er mjög vel í lagt. Þessi launakostnaður hjá stjórninni hækkar úr 4,8 millj. í 6,1 millj. á næsta ári. Hækkunin er því mjög veruleg á milli ára. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað réttlætir þennan launakostnað hjá stjórnarmönnum? Þeir eru flestir í fullu starfi, eins og t.d. seðlabankastjóri. Ég geri ráð fyrir að hann sinni þessari skyldu sinni sem stjórnarformaður í Fjármálaeftirlitinu á sama tíma og vinnutími er í bankanum. Er þá eðlilegt að hann sé að þiggja þarna laun sem nema þeirri fjárhæð sem ég nefndi? Mér finnst ráðherra skulda okkur skýringar á því hvaða forsendur liggi að baki svona háum launakostnaði hjá þessum stjórnarmönnum.

Þeir gera athugasemdir við ferðakostnaðinn. Mér finnst hann töluvert hár líka og hækka verulega á milli ára eða um 3 millj. kr. sem mér finnst ansi mikið. Ég geri ráð fyrir að ferðakostnaður hjá þessari stofnun sé töluvert meiri en hjá viðskrn. sjálfu þannig að ég spyr ráðherra hvort hún fari yfir þessi atriði og athugasemdir frá þessum eftirlitsskyldu aðilum að því er þá þætti varðar.

Það vakti forvitni mína að þeir gerðu einnig athugasemdir við það sem snýr að íþrótta- og gististyrkjum. Ég veit ekki hvað þetta er hjá Fjármálaeftirlitinu. Þetta er upp á 2,5 millj. kr. Ég hef ekki séð þetta áður í rekstrarskýrslum hjá opinberum stofnunum þannig að ég spyr um íþrótta- og gististyrki. Hvað er þetta og hvað er þarna á bak við? Það getur vel verið að þetta sé eðlilegt. En ég spyr hvað þarna liggi að baki í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins, þ.e. íþrótta- og gististyrkja upp á þessa fjárhæð. Fyrirgefið, þetta eru ekki 2,5 millj. Það eru 2 millj. sem þetta á að vera á árinu 2002 en var á þessu ári 1,6 millj. kr.

[11:00]

Þeir gera athugasemd við fjölda starfsmanna og þann fjölda sem er fyrirhugaður hjá stofnuninni á næstu árum og ég geri ekki athugasemdir við það vegna þess að það eru aukin umsvif hjá þessari stofnun. Hún er sífellt að fá á sig fleiri og fleiri verkefni á fjármálamarkaðnum, m.a. eftirlit með lífeyrissjóðunum sem er mjög umfangsmikið og tímafrekt, þannig að ég geri ekki athugasemd við það þó að þarna eigi að fjölga starfsmönnum. Það kemur reyndar fram í þessari skýrslu að þeir hjá Fjármálaeftirlitinu þurfa að eyða miklum tíma í að innheimta skýrslur frá þessum eftirlitsskyldu aðilum sem standa undir rekstri stofnunarinnar. Það er tímafrekt og kallar á mannskap þegar stöðugt þarf að vera með eftirrekstur til þess að fá skýrslu sem Fjármálaeftirlitið þarf að nota til að sinna sínu starfi.

Ráðherra minntist á mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu sem ítarlega eru gerð skil hér en fór ekki mjög ítarlega ofan í þetta. Þar er að finna ýmsar athugasemdir sem rétt er að fara nokkuð ofan í í þessari umræðu, t.d. kemur bæði fram á bls. 22 mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu og einnig ýmsar ábendingar og athugasemdir í viðauka á bls. 35 sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir, og þessar athugasemdir og ábendingar snerta reyndar allt svið fjármálakerfisins á Íslandi. Það eru athugasemdir varðandi lánamarkaðinn almennt, það eru athugasemdir varðandi vátryggingamarkaðinn, það eru athugasemdir varðandi verðbréfamarkaðinn og varðandi lífeyrissjóðina.

Þeir gera þá almennu athugasemd --- eins og ráðherra drap reyndar aðeins á án þess að fara ítarlegar ofan í það eins og hún hefði átt að gera og mér finnst vera skylda hennar --- en það er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að í íslenska fjármálakerfinu séu veikleikar sem stefnt gætu stöðugleika þess í hættu. Þetta eru stór orð, herra forseti, og það þarf að kryfja til mergjar hvað þarna er að baki og hvernig við eigi að bregðast en hæstv. ráðherra gerði það ekki í ræðu sinni áðan. Einmitt út af þessum veikleikum gerir sjóðurinn athugasemdir og bendir á ýmislegt sem betur mætti fara og stuðla mundi að frekara öryggi, bæði að því er varðar löggjöf og opinbert eftirlit. Ég spyr hæstv. ráðherra um viðbrögð hennar við þeim ábendingum, athugasemdum og tillögum sem koma fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varðandi þessi svið fjármálamarkaðarins sem ég nefndi. Þeir nefna t.d. varðandi lánamarkaðinn skort á leiðbeiningum um innra eftirlit eða áhættustýringu. Þeir benda á að Fjármálaeftirlitið geti ekki komið í veg fyrir arðgreiðslur eða látið skipta um stjórnendur eða virka eigendur. Þeir nefna að ekki sé heimilt að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls, og það er nokkuð sem ég vil koma inn á hér á eftir, og hef reyndar gert áður, vegna þess að ég hef gífurlegar áhyggjur af eiginfjárstöðu margra banka og lánastofnana um þessar mundir.

Þeir gera athugasemdir við að skýrleika vanti í reglusetningu og eftirlit með Íbúðalánasjóði. Ég spyr ráðherrann: Hvað þýðir þetta? Ég veit ekki nákvæmlega um hvað er verið að tala, að það vanti skýrleika í reglusetningu og eftirlit með Íbúðalánasjóði, og spyr hæstv. ráðherra um það: Hvað liggur í þessari ábendingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Varðandi vátryggingamarkaðinn telja þeir að móta þurfi og styrkja eftirlit með innra eftirliti. Þeir segja að það sé hætta á skörun á eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins sem annars vegar á að fylgjast með traustleika vátryggingafélags og hins vegar að iðgjöld séu ósanngjörn í garð vátryggingataka. Þarna virðast ekki fara saman þessar skyldur sem Fjármálaeftirlitið hefur, og spurning er hvernig við eigi að bregðast. Þar vek ég athygli, herra forseti, á nýlegu svari frá hæstv. ráðherra varðandi iðgjöld á bifreiðatryggingum sem ég tel, miðað við svar ráðherrans, að séu allar forsendur til að lækka en Fjármálaeftirlitið telur ekki tímabært að taka ákvörðun um hvort ráðist verði í sérstaka athugun á iðgjöldum vegna bifreiðatrygginga. Samt kemur í ljós í svari ráðherrans varðandi bifreiðatryggingar að hagnaður tryggingafélaganna var tæplega einn og hálfur milljarður kr. á sl. ári og eigið fé hafði vaxið um 1,4 milljarða á milli áranna 1999 og 2000 eða tæp 12% og var 13--14 milljarðar kr. Þar kom líka fram að ofmat á tjónaskuldum vegna tjóna sem urðu á árinu 1990 eða fyrr var verulegt. 2,6 milljarðar kr., þar af 1,4 milljarðar vegna lögboðinna bifreiðatrygginga, losnuðu sem sagt úr tjónaskuld sem var ofmetin. Hæstv. ráðherra hefur ákveðnar skyldur varðandi lögboðnar bifreiðatryggingar vegna þess að við erum að tala um skyldutryggingar, og Fjármálaeftirlitið og hæstv. ráðherra eiga og verða að fylgjast grannt með þessari iðgjaldaákvörðun tryggingafélaganna sem hefur keyrt úr öllu hófi á sl. 2--3 árum og hefur verið um og yfir 70% sem ég sé, miðað við afkomu tryggingafélaganna, ekki að séu nein rök fyrir, herra forseti, eða forsendur á bak við. Bæði hagnaðurinn, afkoman, og eigið fé sem virðist vera mjög traust hjá þeim bendir til þess að hægt sé að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga, ekki síst þegar í ljós hefur komið að verulegt fjármagn hefur losnað úr tjónaskuld. Það vekur líka athygli í svari hæstv. ráðherra að hreinn rekstrarkostnaður tryggingafélaganna blæs út á milli ára og hækkar um 300 millj. eða um 27%. Þar er ekki verið að spara þó að alltaf sé verið að blóðmjólka bifreiðaeigendur. Rekstrarkostnaður vex úr 1.153 millj. kr. í 1.464 millj. kr. og það er greinilegt að það er ekki mikið sparað í yfirbyggingu eða stjórnunarkostnaði tryggingafélaganna. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefur hún farið yfir stöðuna varðandi lögboðnar bifreiðatryggingar? Þetta hefur verið töluvert í umræðunni og bifreiðaeigendum hefur ofboðið hvernig tryggingafélögin hafa staðið að þeirri ákvörðun. Það hefur iðulega verið talað um meint samráð tryggingafélaganna og fákeppni á tryggingamarkaði og sem betur fer kemur fram í svari viðskrh. að Samkeppnisstofnun hefur verið að skoða þetta meinta samráð tryggingafélaganna og fákeppni á tryggingamarkaði og er langt komin með það og er niðurstöðu að vænta á næstu mánuðum. Þetta held ég að sé mjög brýnt verkefni sem Samkeppnisstofnun hefur verið að skoða, þ.e. að taka á því sem nefnt hefur verið samráð tryggingafélaganna og fákeppni á tryggingamarkaði sem er auðvitað ein skýring á því af hverju tryggingafélögin hafa getað hagað sér eins og ríki í ríkinu. Ég hef stoppað mjög við þá athugasemd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem segir að hætta sé á skörun í eftirlitsskyldum Fjármálaeftirlitsins sem annars vegar á að fylgjast með traustleika vátryggingafélagsins og hins vegar að gæta þess að iðgjöld séu ekki ósanngjörn í garð vátryggingataka.

Ég spyr hæstv. ráðherra um skoðun hennar á þessari athugasemd, sérstaklega þeirri athugasemd Alþjóðagjaldeyrisjóðsins, hvort ástæða sé til að breyta einhverju, þ.e. varðandi það verkefni sem Fjármálaeftirlitið hefur að því er þetta varðar og setja það þá í hendur annarra en þeirra að meta hvort iðgjöld séu ósanngjörn í garð vátryggingataka eða ekki og að Fjármálaeftirlitið hafi þá bara skyldur til þess að fylgjast með traustleika vátryggingafélaga. Ég spyr að þessu gefna tilefni um það, herra forseti.

Það er ýmislegt sem kemur fram varðandi lífeyrissjóðina sem er athyglisvert í þessum ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reyndar frá Fjármálaeftirlitinu líka. Þeir telja að það þurfi að styrkja eftirlit með innri áhættustýringu sjóðanna og tek ég undir að það er ýmislegt sem þarf að skoða þar, m.a. fjárfestingarstefnu þeirra, og þeir gera reyndar athugasemdir varðandi stöðu nokkurra sjóða sem hefði verið ástæða til þess að fara hér yfir en ég sé að ég hef ekki tíma til þess þar sem hann er langt kominn.

Ég spyr ráðherrann í lokin um tvennt: Liggur fyrir niðurstaða, af því að við erum að fjalla um fjármálastofnanir sem er náttúrlega afar brýnt og eftir hefur verið beðið, á þeirri rannsókn sem var í gangi vegna Búnaðarbankans? Hefur ráðherra eitthvað fylgst með því hvort einhverrar niðurstöðu sé að vænta að því er þann þátt varðar? Mér skilst að þessi rannsókn hafi m.a. verið meginástæðan fyrir því að Búnaðarbankinn væri ekki framar Landsbankanum hvað söluáform varðar, og ég spyr hvort einhver niðurstaða liggi fyrir í því efni eða hvort hennar sé að vænta á næstunni.

Síðan vil ég fara í eiginfjárhlutfall bankanna. Þar hefur einmitt komið ítrekað fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins að það telji að breyta þurfi eiginfjárhlutfallinu. Undir það tekur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem segir að brýnt sé að Fjármálaeftirlitið fái heimild til þess að ákveða hærra eiginfjárhlutfall, og það fái þá heimild nú þegar, en ekki sé verið að bíða eftir því sem iðulega hefur verið vísað til, þ.e. tillögum Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit að nýjum eiginfjárreglum sem stefnt er að að verði samþykktar í lok ársins 2002 og taki gildi árið 2005. Þannig er ekki hægt að skjóta sér á bak við það, eins og mér hefur stundum fundist vera gert, að verið sé að bíða eftir þeim niðurstöðum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur undir það að brýnt sé að Fjármálaeftirlitið fái þá heimild að hækka eiginfjárhlutfall nú þegar og að ekki verði beðið eftir því að þessar tillögur frá Basel-nefndinni taki gildi. Eiginfjárhlutfall bankastofnana hefur verið að lækka verulega og Fjármálaeftirlitið vill fá heimild til þess að það verði ekki undir 10% en í lögum er talað um 8%. Í vaxandi mæli er verið að nota víkjandi lán og það er að verða stærri og stærri hluti af eiginfjárhlutfalli sem er myndað með víkjandi lánum. Ef þau eru dregin frá er eiginfjárhlutfall bankanna að frádregnum víkjandi lánum í mörgum tilfellum komið undir 6% minnir mig án þess að hafa þessa tölu fyrir framan mig.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta. Það er afar brýnt að fá fram hjá ráðherranum afstöðu hennar til þessa máls, ekki síst í ljósi þess mats forstjóra Fjármálaeftirlitsins að líklegt sé að einhverjar fjármálastofnanir lendi í verulegum erfiðleikum á næstunni.