Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 11:50:58 (1340)

2001-11-08 11:50:58# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er kannski ekki mikið andsvar en hv. þm. hélt áfram með nokkur mál. Hvað varðar þessa íþróttastyrki og fleira sem fram kemur í skýrslunni þá held ég að það sé alveg upplagt fyrir nefndina að skoða það frekar.

Ég vil benda á að það er mjög sérstakt hjá ríkisstofnun að opna svona gjörsamlega alla sína starfsemi, það er allt uppi á borðinu. Meðal annars er komin athugasemd frá eftirlitsskyldum aðilum hvað þetta varðar, að þetta sé kannski óþarflega mikil opnun.

Ég endurtek að mér finnst þessi mál ekki sérstaklega þess efnis að ég eigi að hafa miklar skoðanir á þeim. Þessi starfsemi er ekki greidd af ríkinu heldur af eftirlitsskyldum aðilum og það er þeirra að gera athugasemdir og reyna að bæta úr ef þeim sýnist ástæða til en ekki ráðuneytisins.

Hv. þm. vildi ræða meira um stjórnarlaunin og telur þau vera há. Ég vil þó benda á að tekið var mið af t.d. bankaráðum í viðskiptabönkum og Seðlabanka Íslands. Þóknun stjórnar Fjármálaeftirlitsins er engu að síður lægri en þóknun bankaráðs Seðlabankans, en hún er 78 þús. þar. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.

Varðandi það sem hv. þm. talar um í sambandi við eiginfjárhlutfallið, að fara strax í það, þá er fjármálalöggjöfin í heildarendurskoðun og ég veit ekki betur en að sú endurskoðun hafi m.a. verið kynnt í efh.- og viðskn. Í þeirri vinnu verður fjallað um þetta ákvæði og þessa hugsanlegu breytingu og ég styð hana og tel að hún eigi að koma fljótt í framkvæmd.