Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:23:48 (1342)

2001-11-08 12:23:48# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lagasetningin var svo sannarlega ekki mistök og það að ekki sé kveðið á um afskriftir í nál. Þá get ég minnt hv. þm. á að kveðið er á um afskriftir í lagatextanum. Ég held því að öllum hljóti að vera ljóst að þarna var um afskriftir að ræða og hið rétta er að framkvæmdin hafði alltaf verið þannig að gert var ráð fyrir afskriftum vegna aldurs þegar brunabætur voru greiddar út, enda er það í samræmi við meginreglur vátryggingarréttar. Það sem hv. þm. er í rauninni að biðja um er að fólk sé látið greiða iðgjöld miðað við það að engar afskriftir séu, en ef illa fer og bruni á sér stað, þá fær það bætur sem taka mið af afskriftum og eru ekki í samræmi við það iðgjald sem fólk hefur greitt. Það er því alveg með ólíkindum hvernig þessi umræða öll hefur verið frá því að hún hófst einhvern tíma í sumar.

Við teljum í ráðuneytinu að fólk sé miklu betur varið miðað við þessi nýju lög og núna sé um það að ræða að þeim efnislegu verðmætum sem geta glatast í eldi sé lýst nákvæmlega.

Hvað varðar fasteignamatið, þá byggir það á allt öðrum grunni. Það er unnið fyrst og fremst upp úr innsendum kaupsamningum og þess háttar.

Hv. þm. talar um nágrannalöndin og að þar sé þetta með öðrum hætti. Það er rétt vegna þess að þar eru ekki skyldutryggingar. Þar er miðað við, a.m.k. í Danmörku, altryggingu, ég man nú ekki alveg orðið yfir þetta, og það kemur til af því að það er ekki skyldutrygging og fólk getur tryggt sig þannig að það fái nýtt fyrir gamalt, en það er bara ekki hjá okkur.