Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:28:22 (1344)

2001-11-08 12:28:22# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Jú, hæstv. forseti, það er nú einmitt vegna þess að ég stend með húseigendum sem ég hef þessa afstöðu. Ég vil ekki að húseigendur séu að greiða iðgjöld af hærri upphæð en þeirri sem þeir eiga möguleika á að fá ef þeir verða fyrir tjóni og það er grundvallaratriðið í málinu. En það er það sem hv. þm. annaðhvort vill ekki viðurkenna eða heldur einhverju fram sem er ekki samkvæmt sannfæringu hennar vegna þess að hún náttúrlega er búin að leggja mikið undir í þessu máli pólitískt. En raunin er sú að umræðan í þjóðfélaginu hefur gjörbreyst vegna þess að fólkið er farið að átta sig á þessu. Og þegar hv. þm. talar um að fasteignaeigendur séu hræddir þá er það ekki mikið þó þeir séu hræddir, eins og hún er búin að láta í fleiri mánuði í sambandi við þetta mál, búin að hræða fólk þannig að það veit hvorki upp né niður hvernig það stendur í sambandi við brunabætur. Og mér finnst það ekki til fyrirmyndar hjá hv. þm., ég skal bara segja það.

En þegar hv. þm. talar um viðbótartryggingar þá ætla ég ekki að fullyrða mikið um það, mér hefur ekki verið gerð grein fyrir því. Það getur vel verið að tryggingafélög ætli að reyna að nýta sér þá stöðu sem komin er upp, fólk skíthrætt og heldur að það sé ekki með eignir sínar tryggðar, og það getur vel verið að tryggingafélögin ætli að reyna að nýta það og þá skal ég svo sannarlega reyna að taka á því máli.

En aðalatriðið er að húseigendur standa betur en áður og til þess var leikurinn gerður. Kannað var af ráðuneytinu þegar þessi lög voru sett eða þegar undirbúningur fór fram hvort vilji væri í þjóðfélaginu fyrir því að hætta við skyldutryggingar á Íslandi og það reyndist ekki vera, þess vegna höfum við haldið þeim áfram. Og þegar hv. þm. er sí og æ að miða við Danmörku og aðrar þjóðir og þar sé allt svo miklu betra þá tekur hún það ekki með í reikninginn að þær eru ekki með skyldutryggingar.