Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:38:21 (1347)

2001-11-08 12:38:21# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef talið að stjórnarliðum þætti svolítið óþægilegt að hafa farið þá leið sem þeir fóru vegna lagabreytingarinnar á sínum tíma og væru e.t.v. að skoða hvernig hægt væri að laga þær breytingar sem leiddu til þess slyss sem varð í kjölfarið. Þess vegna finnst mér fullkomlega fráleitt að hlusta á hvernig hæstv. viðskrh. bregst nú við því frv. sem hér liggur fyrir. Ég tel að stjórnarliðar sýni fullkomið ábyrgðarleysi ef þeir breyta ekki lögunum frá því sem nú er. Það er ekki rétt sem hæstv. viðskrh. heldur fram að húseigendur standi betur að vígi en áður. Húseigendur standa nú verr og get ég sýnt ráðherranum mörg dæmi þess og lagt fyrir hann tryggingaseðla og sendingar frá Fasteignamatinu þar að lútandi.

Okkar frv. sem hér er til umræðu er í samræmi við þá grundvallarhugsun sem er að finna í lögunum, er að finna áfram í breytingunum á lögunum frá 1998--1999, að hér sé húseigendum skylt að vátryggja gegn eldsvoða allar húseignir. Þetta er grundvallaratriði. Skyldutrygging húsa er hluti af velferðar- og öryggisneti okkar í landinu. Því viljum við ekki breyta. Það viljum við fremur efla heldur en hitt. Þess vegna kemur ekki til greina að hegða sér þannig með þessa skyldutryggingu að hún verði svo bágborin að tryggingafélög skjótist þar inn á markaðinn og komi með viðbótartryggingar þannig að hér komi upp sú staða að sumir tryggi og sumir ekki. Þetta er grundvallaratriði í málinu, algert grundvallaratriði. Um það erum við að ræða.

Frv. okkar, eins og ég hef áður sagt, er í samræmi við þessa hugsun. Þessi hugsun er þýðingarmikil vegna þess að ef maður hvarflar frá henni, hvarflar maður frá grundvallarhugsun í samfélagsgerð okkar.

Ég vil fara aðeins nánar ofan í forsendur þeirrar lagabreytingar sem ollu þessum usla og sem framsögumaður í máli þessu, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, vék að áðan. Ég er með útskrift af ræðu hæstv. þáv. viðskrh. og meginatriði hennar eru þessi: Það hefur komið fram gagnrýni, einkum frá Bændasamtökum Íslands, og framkvæmd laganna hefur komið hart niður á bændum hvað varðar van- eða ónýttar húseignir á jörðum þeirra. --- Það kemur fram í ræðu ráðherrans á þeim tíma að hann fól nefnd að skoða þessi mál. Nefndin ritaði hagsmunaaðilum og kannaði viðbrögð við tveimur hugmyndum, annars vegar að afnema algerlega skyldutryggingu húseigenda sem hefði orðið algjört afturhvarf frá þeirri hugsun sem ég hef vikið að um velferðarsamfélag okkar og hins vegar að hægt sé að fá undanþágu á brunatryggingu, en þá að undanþágan yrði háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og veðhafa. Fram kom í ræðu ráðherrans að eingöngu Bændasamtökin lýstu sig fylgjandi því að aðilum í atvinnurekstri ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þeir brunatryggðu húseignir sem notaðar væru í atvinnurekstri. Allir aðrir vildu áfram viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi.

Fólkið í landinu var ekki spurt um heimili sín af því að sjálfsögðu var gert ráð fyrir því að heimilin í landinu vilja skyldutrygginguna og öryggisnetið. Hæstv. þáv. ráðherra sagði:

,,Frv. þetta gerir engu síður ráð fyrir þeim möguleika að lækka megi brunabótamat tiltekinna húseigna umfram það sem matið hefði ella orðið að uppfylltum skilyrðum. Vart verður með sanngirni litið fram hjá þeim breytingum sem átt hafa sér stað hin seinni ár vegna samdráttar í hefðbundnum landbúnaði sem og vegna breyttra búhátta sem einkum snerta bændur.``

Hvernig í veröldinni, virðulegi forseti, átti okkur í þessum sal að detta það í hug sem á eftir kom eftir framsögu með þessari hugsun.

Ef við skoðum svo umsögn fjmrn. um frv. sem þá lá fyrir, þá segir fjmrn.:

,,Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að veitt verði heimild til að lækka vátryggingarfjárhæðir húseigna (brunabótamat) sem eru í lélegu ástandi og ekki í notkun með samþykki sveitarstjórnar enda staðfesti hún ástand eignar og notkun.``

Svo segir fjmrn.:

,,Hins vegar eru nýmæli í frumvarpinu sem heimila Fasteignamati ríkisins að meta fasteignir án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og má meta þetta ákvæði til nokkurrar hagræðingar.``

Við vitum hvað það þýðir, þ.e. að upplýsingar, teikningar og upplýsingar frá byggingarfulltrúum sveitarfélaganna sem liggja fyrir Fasteignamatinu geti verið grundvöllur mats, enda hefur eigandinn þá alltaf áfrýjunarrétt á því hvort þarna hafi verið rétt með farið.

Svo kemur nál. frá efh.- og viðskn. Þar er sagt ,,að Fasteignamat ríkisins sjái eitt um hvort tveggja fasteignamat og brunabótamat og að heimilt verði að lækka brunabótamat frá því sem það ella hefði orðið ef húseign er í mjög lélegu ástandi og er ekki í notkun.``

Nefndin ákvað að segja ekki ,,... í mjög lélegu ástandi ...`` heldur ,,... í lélegu ástandi og lítt í notkun ...``. Þetta er umsögn og nál. efh.- og viðskn. um það mál sem átti eftir að valda svo miklum usla.

[12:45]

Þáverandi fulltrúi Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. fjallar nákvæmlega um þennan þátt og segir að það að heimila það að færa niður vátryggingarfjárhæðir húseigna, þó það sé áskilið samþykki sveitarstjórnar o.s.frv., miði allt að því að búa til sérreglur gagnvart bændum vegna brunatryggingar og það sé röng stefna vegna þess að við séum með almenna löggjöf um brunatryggingar, sem hafi reynst vel og það eigi að vera almenn regla. Það sem við ekki vissum var að sérreglan fyrir bændur með léleg hús sem ekki væru í notkun yrði yfirfærð á heimilin í landinu. Við höfum gagnrýnt það og við viljum breyta því með frv. okkar.

Herra forseti. Umræðan hefur auðvitað ekki verið í neinu samhengi við raunveruleikann. En það hvarflaði ekki að mér að hæstv. viðskrh. kæmi hér og reyndi að verja þetta mál og stöðuna eins og hún er í dag, líkt og hún hefur gert, og er fullkomlega úr takt við allar staðreyndir.

Þessi breyting hafði áhrif á hvert einasta heimili í landinu. Með henni breyttist fasteignamatið. Sumir vilja hafa hátt fasteignamat og ef þeir lentu í því að mat hækkaði þá fannst þeim það í lagi. Sumir vilja hafa lágt fasteignamat, ætla ekki að selja og ef það lækkar þá skiptir það þá ekki máli, þá var það líka í lagi og þýddi lægri iðgjöld, þ.e. þegar einstaklingurinn er að hugsa um hag sinn. En þetta hafði áhrif á brunatryggingarnar og altjónið.

Ég velti fyrir mér: Skyldi hæstv. viðskrh. hafa litið á það hvaða afleiðingar þessi breyting getur haft fyrir timburhús? Ég þekki það. Ég er búin að fara í gegnum slíkt dæmi. Ég þekki söguna af því að eiga gamalt, áratuga gamalt timburhús, gjörbreyta því og færa það til nútímans og byggja við það. Vera með fasteignamat og fá endurmatið í hendur. Ég þekki tölurnar sem standa þar. Enginn skyldi koma til mín og segja að þetta mat sýni að ég fengi til baka virði húss míns við altjón. Enginn. Enda hef ég kært matið.

Menn verða að gera sér grein fyrir því að það er mjög mikilvægt að löggjöfin hvetji fólk til að kaupa gömul hús og færa þau inn í nútímann. Ég bý í bæ sem á sér merkilega sögu. Varð til af miklum vanefnum á 5. áratugnum. Fólk fékk lóð og byggði með tvær hendur tómar. Hver sem er getur keyrt um Kópavog í dag og séð falleg gróin hverfi. Og hafi menn verið vanbúnir í upphafi þá er búið að breyta því. Þetta skiptir máli fyrir bæjarsýnina, fyrir heildina, fyrir alla bæi þar sem málum er þannig háttað, þó ég vísi í minn bæ. Gömul falleg hverfi þar sem búið er að standsetja og endurbæta alveg endalaust. Ég geri mér grein fyrir því að fyrningarreglan sem við vorum að breyta var til áður. Ég veit ekki hvort hún kom inn með lögunum 1998 eða 1999 eða enn þá fyrr en hún kemur við fólk sem kaupir gömul hús, endurbætir, breytir eða byggir við, á allt annan hátt í dag, við gildandi lög.

Ég þekki dæmi um hús þar sem fólk hefur tekið húsið og byggt við það. Fyrir liggur mat og þegar búið er að ganga frá öllu og endurbyggingin klár þá er haft samband við Fasteignamatið og óskað mats. Núgildandi lög voru þá að taka gildi og áður en fulltrúi Fasteignamatsins er kominn til að skoða húsið í hinum nýja búningi þá kemur endurmatið fræga með skelfilegum tölum, í engu samhengi við verðgildi hússins, í engu samhengi við það hvað er hægt að fá, yrði húsið eldi að bráð. Allt í lagi. Það er von á fulltrúa frá Fasteignamatinu og fulltrúi Fasteignamatsins kemur og skoðar húsið, allt það nýja sem þar er að finna og allar endurbæturnar. Hann skráir hjá sér og hann fer til baka og það kemur endurmat og það er bara viðunandi, enda er fulltrúi Fasteignamatsins búinn að koma á staðinn og skoða, sjá með eigin augum að þetta 50 ára hús lítur ekki út fyrir að vera 50 ára eða lúið hús. Það er endurbætt, innan og utan, ofan og neðan. Viðbyggingar. Nýjar innréttingar. Þetta er nýtt hús. En Adam var ekki lengi í paradís. Viku seinna kom nefnilega endurmat á nýja matinu, af því að lögin segja að það eigi að taka mat og endurmeta það niður. Það á að endurmeta það niður. Þegar fulltrúi Fasteignamatsins er búinn að koma og skoða húsið og gera raunverulegt mat þá eru stuðlarnir teknir upp á borðið og húsið metið niður upp á nýtt.

Þetta hefur verið að gerast. Ég leyfi mér að halda því fram að þeir sem tala eins og hæstv. viðskrh. gerði hér áðan viti bara ekki alveg hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig og þekki ekki grundvöllinn að öllum kærunum sem bárust vegna matsins. Þó vitum við að í samfélaginu eru margir sem treysta sér ekki í kærur, treysta sér ekki til að taka saman breytingarnar sem hafa verið gerðar, stöðuna á húsinu sínu og færa rök fyrir því af hverju ekki er ásættanlegt að fá mat eins og þarna var lagt fram.

Það var amast við því að framsögumaður þessa máls okkar skyldi tala um afskriftirnar og að þær finnist ekki í nágrannalöndunum. Við verðum einfaldlega að skoða hvort það eigi að vera afskriftir ef við ætlum að byggja upp samfélag þar sem borin er virðing fyrir eigum fólks, virðing fyrir því að fólk hér á Íslandi hefur í miklu ríkari mæli en annars staðar viljað búa í eignarhúsnæði. Það kemur sér upp húsnæði, viðheldur því, endurbætir það --- alltaf af sköttuðum tekjum, þegar um er að ræða launafólk.

Ég minni á að þessi stjórn, þessi ríkisstjórn, færði niður endurgreiðslurnar á virðisaukaskatti sem áður voru greiddar af viðhaldi og endurbótum á húsum. Alltaf skal launþeginn í öllum tilfellum borga ríkinu það sem ríkisins er. Þá ætlast ég til að eitthvað sé til sem heitir gagnkvæm virðing. Þess vegna á að endurskoða, úr því að fara á að meta húsið eins og það er á hverjum tíma, afskriftirnar.

Pólitíkin í málinu er þessi: Mjög margir telja að ef skyldutrygging vegna bruna taki ekki mið af eigninni eins og hún er og verðgildi hennar þannig að einstaklingur geti eignast tilsvarandi eign --- ekki nýrri og flottari, heldur tilsvarandi eign --- þá horfum við fram á að hugsandi fólk sem lítur á lífsstarf sitt sem liggur í viðkomandi eign og ætlar að tryggja að eignin haldist, líka við altjón, sem auðvitað er mest hætta á við timburhúsin, mun leita eftir viðbótartryggingum. Auðvitað er vandi á höndum ef Fasteignamat ríkisins heldur því fram að verðgildi húss sé ekki meira en 11 milljónir þótt ekki fáist nema tveggja eða þriggja herbergja íbúð fyrir það. Þegar 170 fermetra hús með bílskúr á stórri lóð er metið á 11 milljónir þá er auðvitað erfitt fyrir tryggingafélögin að segja: Bíddu, hvernig eigum við að tryggja þegar þetta er verðgildi hússins? Það yrði fundin leið til þess. Það yrði fundin leið til þess vegna þess að fólk lætur ekki bjóða sér þetta. Það vill geta tryggt eignina sína, bílinn sinn og innbúið sitt.

Þá fer af stað þróun sem er varhugaverð. Þá erum við komin út úr velferðarsamfélaginu. Þá er öryggiskerfið okkar og öryggisnetið farið fyrir bí. Það yrði upphaf að samfélagsgerð sem við viljum ekki sjá, ekki við sem flytjum þetta frv. Ég hélt að Framsfl. vildi ekki sjá slíka samfélagsgerð. En ég veit að ráðandi flokkur í ríkisstjórninni vill þannig samfélag, þar sem hver og einn borgar næstum enga skatta hugsar ekki um bróður sinn og sá sem á peninga, tryggir sig og hinir skulu bara hafa það eins og þeir vilja.

Þess vegna hvet ég hæstv. viðskrh. til að huga að þessu máli og fara með okkur í að skoða það í efh.- og viðskn. hvernig hægt sé að taka á þessum málum til að koma í veg fyrir eignaupptöku hjá sumum í þessu landi --- ekki öllum, sumum.