Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:58:35 (1361)

2001-11-08 13:58:35# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Reglur um notkun á flugmálastjórnarvél frá 1997 eru mjög skýrar. Fyrir utan eigin starfsemi Flugmálastjórnar sinnir hún verkefnum á sviði neyðar- og bráðaflugs fyrir opinbera aðila. Í öðru lagi aðstoðar hún opinberar stofnanir á sviði löggæslu, almannavarna og sérstakra vísindarannsókna er varða almannaheill, t.d. vegna náttúruhamfara. Í þriðja lagi sinnir hún verkefnum fyrir ráðuneyti eftir því sem við verður komið. Og í fjórða lagi flytur hún æðstu embættismenn þjóðarinnar þegar þess er óskað.

Verð fyrir notkunina miðast við fastan og breytilegan kostnað og afskriftir og vexti vélarinnar. Verðlagningin miðar við að ekki þurfi til sérstakt ríkisframlag til rekstrarins. Vélin er ekki á samkeppnismarkaði frekar en önnur farartæki í eigu ríkisins vegna þess að það eru til svo afmarkaðar og skýrar reglur um hver getur leigt vélina.

Farþegalistar eru öryggisatriði á meðan á flugi stendur en hafa ekki annan tilgang fyrir flugrekstraraðila. Farþegalistar eru ekki haldnir hjá öðrum sem stunda farþegaflutninga, svo sem í fólksflutningabifreiðum, að ég tali nú ekki um bílaleigubíla. Það hlýtur þó að teljast bókhaldsatriði hjá þeim stofnunum sem nota farartæki til ferðalaga, að skrá tilgang ferðar og hverjir hafa ferðast með farartækjunum.

Flugvél Flugmálastjórnar sinnir mikilvægum öryggis- og gæslumálum. Vélin hefur sérstaklega góða flugeiginleika sem nýtast oft vel við erfiðar aðstæður. 69% af flugtíma vélarinnar eru vegna nauðsynlegs flugs, vegna flugprófana, viðhalds og eftirlits fyrir stofnunina sjálfa og 5% eru vegna leitar- og björgunarstarfa.

Niðurstaðan er þessi, hæstv. forseti: Flugmálastjórnarvélin er nauðsynlegt tæki til flugprófana. Um 70% notkunar hennar eru til þeirra hluta. Vélin er ekki á samkeppnismarkaði og reglurnar um notkun hennar eru skýrar og vel skilgreindar.

Sjónarmið málshefjanda um einkavæðingu á öryggisþáttum eru íhugunarverð og fróðleg, og það er afar fróðlegt að vita hvort hér sé um stefnu Samfylkingarinnar að ræða.