Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:02:38 (1363)

2001-11-08 14:02:38# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir umræðurnar sem að ýmsu leyti voru fróðlegar og gagnlegar fyrir það mál sem hér er tekið upp, vegna þess að mér sýnist að ljóslega hafi verið upplýst að það er ekki þvílíkt stórmál og hv. málshefjandi hefur látið í veðri vaka og fjarri öllu lagi að reiða svo hátt til höggs eins og tilraun er gerð til.

Ég tek fram, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, að skýrar reglur eru um notkun vélarinnar. Þær voru fyrst settar árið 1991, til að halda því til haga, og síðan endurnýjaðar árið 1997. Þær liggja fyrir og allir geta fengið upplýsingar um þær.

Tryggingar sem hér voru nefndar á þeim sem fljúga með vélinni eru að sjálfsögðu í góðu horfi. Allir eru tryggðir sem með þessari vél fljúga. Og samkvæmt loftferðalögum þá ber að skrá nöfn allra sem fljúga með íslenskum flugvélum, hvort sem er milli landa eða innan lands, þannig að það liggur ljóst fyrir að tryggingaþáttur þessa máls er í traustu fari.

Varðandi það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom hér að og reyndi að nota það tækifæri til að koma einhverju höggi á Flugmálastjórn til hliðar við þetta mál með því að taka upp umræðu um ritun fundargerða flugráðs. Það sem þar er á ferðinni er nú ekki annað en að verið er að breyta fyrirkomulagi fundargerðarritunar flugráðs til þess horfs sem víðast hvar er, þ.e. að það sé skýrt bókað hvaða mál eru tekin á dagskrá og hverjar eru afgreiðslur. Það er nú allt og sumt.

En að öðru leyti, forseti, vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er feginn að hafa fengið tækifæri til að skýra þetta mál út með þeim hætti sem ég hef gert.