Tryggingarskilmálar vátryggingafélaga

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:47:21 (1370)

2001-11-08 14:47:21# 127. lþ. 25.4 fundur 59. mál: #A tryggingarskilmálar vátryggingafélaga# þál., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér till. til þál. sem ég óska eftir að verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðu.

Hér er um að ræða mál sem varðar mjög marga. Ýmsir hafa rætt það við mig og ég hef frétt af því í viðræðum við aðra auk þess að hafa séð fréttir af því að margir tryggingarkaupar telja sig hafa farið halloka út úr viðskiptum við tryggingafélögin vegna tryggingarskilmála. Þess vegna varð þessi þáltill. til um tryggingarskilmála vátryggingafélaga.

Meðflutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Kristján Pálsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Ögmundur Jónasson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að endurskoða ákvæði laga um vátryggingastarfsemi er lúta að tryggingarskilmálum með það að markmiði að ábyrgð og skyldur tryggingafélaga gagnvart tryggingartaka verði skilgreindar nánar en nú er gert.``

Í grg. með þessari tillögu segir að á undanförnum árum hafi athygli manna í auknum mæli beinst að réttarstöðu neytenda. Í ljós hefur komið að við setningu laga hefur ekki ávallt verið gætt jafnvægis milli kaupanda og seljanda hvers kyns þjónustu. Nokkur framför hefur þó orðið í þessum málum á undanförnum árum.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að sérstakri nefnd verði falið að endurskoða ákvæði þau er lúta að tryggingarskilmálum í lögum um vátryggingastarfsemi.

Ég hef kynnt hæstv. viðskrh. þessar hugmyndir og þess vegna gerði ég ekki kröfu um að hæstv. viðskrh. væri hér viðstödd. En henni er kunnugt um þáltill.

Aðstaða hins almenna tryggingartaka er veik gagnvart tryggingafélögunum. Mjög erfitt er fyrir hann að fá ákvæðum í stöðluðum tryggingarskilmálum breytt þótt hann hafi athugasemdir við þau og því stendur hann oft í þeim sporum að gangast undir tryggingarskilmála eða verða af tryggingaverndinni ella. Staða tryggingartaka er sérlega slæm að þessu leyti þegar um skyldutryggingar er að ræða því að þá er honum skylt að kaupa tryggingu þó svo að hann kunni að vera ósáttur við þá tryggingarskilmála sem bjóðast. Samkeppni milli tryggingafélaga virðist ekki nægja til að réttur manna sé tryggður að þessu leyti.

Í tilvikum þar sem einn aðilinn ber höfuð og herðar yfir annan vegna stærðar sinnar og sérfræðikunnáttu eru skyldur löggjafans mun meiri en almennt gerist til að tryggja að ákveðið jafnvægi og jafnræði ríki í viðskiptum milli aðila. Í þessu felst í raun kjarni nútímaneytendaverndar. Aðstaða tryggingafélaganna gagnvart tryggingartaka er í flestum tilvikum með þessum annmarka og því nauðsynlegt að löggjafinn tryggi sanngjarnt viðskiptaumhverfi.

Það er álit flutningsmanna að tryggja þurfi með skýrari hætti en nú er gert í lögum hverjar skyldur tryggingafélaganna eru og því er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.

Alkunna er að tryggingafélög ráða því hvaða aðilum þau selja tryggingu og geta hafnað hverjum sem er án þess að gefa upp ástæðu þar að lútandi. Sem dæmi má nefna að félag feitra á í deilum vegna þess að einstaklingum hefur verið neitað um tryggingarkaup. Einstaklingum innan þess félags hefur verið neitað um tryggingarkaup og þar er borið við heilsufarsástæðum, jafnvel þó að læknir hafi gefið vottorð um að heilsu sé ekki í öðru ábótavant en að viðkomandi sé of feitur.

Einstaklingum hefur verið neitað um slysatryggingu þrátt fyrir að hafa lagt fram fullgild læknisvottorð um heilbrigði og hreint sakavottorð. Þetta tel ég mjög alvarlegt mál, herra forseti, og hef þar í huga einstakling sem er að vinna að eigin atvinnurekstri og fær ekki með nokkru móti tryggingar vegna þess að sá hinn sami varð að ganga undir aðgerð nokkrum árum áður vegna æxlis í höfði sem síðan var læknað og eftir það fær viðkomandi einstaklingur ekki tryggingu. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Það er alkunna að fyrir dómstólum eru á hverjum tíma mörg mál sem einstaklingar hafa höfðað á hendur tryggingafélögum. Flutningsmönnum er kunnugt um marga sem telja sig fara halloka í viðskiptum við tryggingafélögin þó svo að þau mál hafi ekki endað sem dómsmál.

Það er álit flutningsmanna að skerpa þurfi verulega á og bæta við ákvæði laga um vátryggingastarfsemi sem lúta að neytendavernd.

Virðulegi forseti. Ég hef nokkur dæmi um blaðafregnir þar sem tryggingafélögin hafa fengið óþægilega athygli, m.a. í þessari grein þar sem tryggingafélögin saka fólk um svik. Ég vitna, með leyfi forseta, í frétt frá miðvikudeginum 3. október 2001 þar sem tryggingarkaupi lendir í því að bifreið hans er stolið af bílasölu og hún eyðilögð og eftir situr kaupandinn með sárt ennið af því að bíllinn var eyðilagður og hann fékk ekkert út úr tryggingum vegna þess að tryggingar eru ónógar hjá þeim aðilum sem fást við bílasölu:

,,Eigandi bifreiðarinnar, 73 ára sjómaður vestan af fjörðum, situr eftir með sárt ennið og fær bifreiðina ekki bætta. Virðist sem bílasalan beri enga ábyrgð þrátt fyrir að starfsmaður hennar hafi lánað bifreiðina án eftirlits.`` --- Starfsmaður viðkomandi bílasölu hafði lánað bifreiðina. --- ,,Þá vísa bæði tryggingafélag bílasölunnar og bílsins málinu frá sér, en hið síðara varar fólk við að fara með bíla án kaskótryggingar á bílasölur.``

Slík atriði, virðulegi forseti, erum við flutningsmenn að benda á, þar sem einstaklingurinn þarf í raun að vera tryggingafræðingur til að átta sig á rétti sínum í svona málum. Það eru til mörg dæmi um að þeir sem orðið hafa fyrir tjóni með bifreið sína kaskótryggða t.d. og eiga ekki nokkra sök á árekstri sem verður eða skemmdinni verða að sæta því að gert er við bifreiðina sem fellur um leið í verði. Það er alveg sama hversu vel er gert við bifreiðina, þeir verða að sæta því að hvert sem tjónið er á bifreiðinni --- þetta er viðurkennt af öllum aðilum --- þá verði þeir að taka eitthvað tjóninu á sig, mismunandi mikið en það getur skipt hundruðum þúsunda.

Við flutningsmenn viljum vekja athygli á þessum málum og förum því fram á að skipuð verði nefnd til þess að endurskoða tryggingarskilmála.

Ég ítreka síðan, virðulegur forseti, að ég óska þess að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðu.