Tryggingarskilmálar vátryggingafélaga

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:57:03 (1371)

2001-11-08 14:57:03# 127. lþ. 25.4 fundur 59. mál: #A tryggingarskilmálar vátryggingafélaga# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þáltill. sem hv. 1. flm., Gísli S. Einarsson, mælti fyrir áðan. Ég tel að hér sé verið að hreyfa þörfu máli. Einstaklingar eru sem slíkir ekkert sérstaklega í stakk búnir til að hafa sérstök áhrif á tryggingarskilmála. Þess vegna held ég að við séum að leggja hér til þarft mál með því að skipa nefnd til að endurskoða vátryggingastarfsemi og tryggingarskilmála.

Auðvitað geta menn verið ósáttir við þau skilyrði sem þeim eru sett í tryggingarskilmálum. Það hefur iðulega komið upp að menn hafi talið sig fara með skarðan hlut frá borði varðandi tryggingar, m.a. í sambandi við bílatryggingar eins og hv. 1. flm. nefndi áðan. Síðan er alveg ljóst að það ríkir ekki beint jafnræði milli einstakra tryggingartaka, einstaklinga annars vegar og tryggingafélaganna hins vegar, þegar kemur að því að rökræða um tryggingar. Þetta er jafnvel talið sérstakt fag í lögfræðinni, tryggingaréttur, þannig að það er ekki við því að búast að einstaklingar eigi þar almennt jafna möguleika og tryggingafélögin ef þeir eru ósáttir við tryggingarskilmála.

Menn þekkja auðvitað mörg dæmi þess að þeim hafi staðið til boða að fara í mál við tryggingafélögin en kosið að gera það ekki vegna kostnaðar. Þá er auðvitað farið að halla verulega á einstaklinginn og verulega á neytendaréttinn og neytendaverndina þegar málum er þannig komið að neytandinn treystir sér ekki til að sækja rétt sinn, sem honum finnst eðlilegt að hann eigi, eingöngu vegna þess að málsmeðferðin er orðin það flókin og dýr að það er ekki á færi einstaklinganna að sækja hann nema með miklum kostnaði. Menn kjósa því oft að láta frekar óréttláta niðurstöðu yfir sig ganga heldur en að reyna að sækja rétt sinn. Þetta þekkja allir og hafa heyrt sögur um slíkt og vitanlega hafa margir reynt þetta á sjálfum sér. Þetta er því ekkert nýtt.

Af þessum sökum held ég að tillagan sem við leggjum hér fram, um að Alþingi samþykki að viðskrh. skipi nefnd til að endurskoða vátryggingastarfsemi og tryggingarskilmála, sé meira en þörf. Ég treysti því að aðrir þingmenn þekki dæmi um að málið sé með þeim hætti sem 1. flm. hefur rætt hér og ég hef tekið undir og taki þessu máli vel.