Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:00:32 (1372)

2001-11-08 15:00:32# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Frv. þetta var samið í heilbr.- og trmrn. í samvinnu við formann stjórnar Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

Megintilgangur þessa frv. er að bæta þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með talmein.

Fyrirkomulag Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar er samkvæmt lögum með þeim hætti að stofnunin á í erfiðleikum með að standa við þær skyldur sem lögin leggja á hana. Í frv. er því hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar skilgreint nánar. Einnig er lagt til að fagráð komi í stað stjórnar, og ákvæði um gjaldtöku eru gerð skýrari vegna þeirra krafna sem gerðar eru til gjaldtökuákvæða í stjórnarskipunarlögum.

Vegna erfiðleika stofnunarinnar fór fram á vegum Ríkisendurskoðunar stjórnsýsluendurskoðun á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Í skýrslu sinni gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir við starfsemi stöðvarinnar og bendir á ýmis atriði sem betur megi fara.

Í framhaldi af athugun Ríkisendurskoðunar var m.a. kannaður sá möguleiki að stöðin sameinaðist Sjúkrahúsi Reykjavíkur eins og núgildandi lög gera ráð fyrir, en af því varð ekki.

Eftirspurn eftir þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar hefur vaxið samfara fjölgun aldraðra í þjóðfélaginu, en þeir eru sá hópur sem mest leitar til stöðvarinnar. 87% þeirra sem leita til stöðvarinnar eru eldri en 67 ára. Miklar framfarir hafa orðið í gerð heyrnartækja, ný stafræn tækni í gerð heyrnartækja hefur rutt sér til rúms og kostnaður við innkaup slíkra tækja hefur farið vaxandi. Hefur þetta leitt til aukinnar eftirspurnar eftir hjálpartækjum og í janúar 2001 biðu u.þ.b. 1.200 einstaklingar eftir heyrnartækjum. Ljóst er að hér er um að ræða vanda sem frv. er ætlað að takast á við.

Í apríl árið 2000 var kynnt í heilbr.- og trmrn. greinargerð um málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu Ráðgarði. Niðurstöður þessarar greinargerðar voru í svipuðum anda og athugun Ríkisendurskoðunar. Í framhaldi af niðurstöðu greinargerðarinnar hefur verið unnið að endurbótum á starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

Í samræmi við framangreint ákvað þáv. heilbr.- og trmrh. að láta endurskoða gildandi lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Sérlög um stofnunina hafa verið í gildi frá 1980 en eðlilegt verður að teljast að lagaákvæði um þennan þátt í heilbrigðisþjónustu við landsmenn falli undir almenna heilbrigðislöggjöf og verði hluti af lögum um heilbrigðisþjónustu.

Í frv. eru meginákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands felld inn í lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, jafnframt því sem í frv. er gerð tillaga um einföldun lagatextans, hann gerður skýrari og færður til nútímalegs horfs. Felld eru út ákvæði sem eðlilegt má telja að kveðið sé á um í árangursstjórnunarsamningi milli stöðvarinnar og heilbr.- og trmrn. um markmið og þjónustustig stöðvarinnar og það verði í samræmi við fjárveitingar hverju sinni. Er það í samræmi við nútímastjórnsýslu og aðra samninga sem unnið er að í ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála.

Vegna áhuga einkaaðila á að hefja sölu á hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og vandkvæða Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands við að uppfylla þörf fyrir heyrnartæki þótti rétt að opna þann möguleika í frv. að ráðherra gæti veitt öðrum rekstrarleyfi til að annast þá þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir í dag. Er í frv. gert ráð fyrir að slíkt leyfi sé háð sömu skilyrðum og eftirliti og þegar um er að ræða aðrar stofnanir eða fyrirtæki sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að hjálpartækin verði veitt einstaklingum á svipuðum kjörum og hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni.

Virðulegi forseti. Ég mun nú rekja nánar helstu breytingar sem felast í frv. Þar segir að starfrækja skuli stofnun sem nefnist Heyrnar- og talmeinastöð. Starfsvettvangur Heyrnar- og talmeinastöðvar er rýmkaður. Þá er kveðið á um hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar í fimm töluliðum og er upptalning á einstökum þáttum. Er þar m.a. tekið mið af skýrslu Ríkisendurskoðunar og greinargerð ráðgjafafyrirtækisins Ráðgarðs eins og fyrr greinir. Þannig er stöðinni jafnframt ætlað það hlutverk að sinna málefnum heyrnarlausra en gildandi lög kveða einungis á um þjónustu við heyrnarskerta og heyrnardaufa. Rýmkunin er í samræmi við breytt viðhorf og núverandi framkvæmd en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur sinnt málefnum heyrnarlausra, m.a. hefur hún haft milligöngu um útvegun og afgreiðslu tölvubúnaðar til þessa hóps ásamt því að þjónusta hann og annast þjálfun, forrannsóknir og eftirmeðferð vegna kuðungsígræðslna. Búast má við að þessi þjónusta stöðvarinnar fari vaxandi.

Í 1. tölul. er það nýmæli, eins og ég hef áður sagt, að þjónusta stöðvarinnar nær til heyrnarlausra og þeirra sem eru með talmein. Orðið talmein hefur öðlast sess í íslensku máli og er notað í stað málhaltra í dag. Annað nýmæli er að kveðið er á um það hverjir geti notið þjónustu stöðvarinnar, þ.e. þeir sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Er talið rétt að sömu skilyrði gildi um þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar og þjónustu sjúkrahúsa og Tryggingastofnunar ríkisins, þ.m.t. hjálpartækjamiðstöðvar Tryggingastofnunar.

Í 2. tölul. er kveðið skýrar á um einstaka þjónustuþætti stöðvarinnar en ekki er um nýmæli að ræða.

Í 3. tölul. er fjallað um forvarnir sem eru taldar mjög mikilvægur þáttur í starfsemi stöðvarinnar en þann þátt þarf að efla verulega. Það er kunnugra en frá þurfi að segja að hávaði og hávaðamengun er vaxandi vandamál í nútímaþjóðfélagi og brýnt að sinna öflugu forvarnastarfi og þá ekki síst meðal ungs fólks, m.a. í skólum landsins. Þá eru heyrnarrannsóknir á vinnustöðum umtalsverður hluti af þjónustu stöðvarinnar sem fer vaxandi.

Í 4. tölul. er fjallað um hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með talmein ásamt viðhaldi á þeim tækjum. Reikna má með að einhverjar breytingar verði á þessum þætti í þjónustu stöðvarinnar. Heyrnartæki verða brátt til sölu á almennum markaði eftir nánari reglum sem heilbr.- og trmrh. setur. Reynsla nágrannaþjóðanna hefur sýnt að þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið reynt hefur samt sem áður lítið dregið úr eftirspurn eftir heyrnartækjum á opinberum heyrnarstöðvum. Má að einhverju leyti rekja það til sífellt vaxandi eftirspurnar og tæknilegra framfara. Þá er gert ráð fyrir að aðrir en yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum, geti metið þörf fyrir hjálpartæki fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Er það eðlileg þróun og í samræmi við það sem er að gerast í nágrannaríkjunum.

Í 5. tölul. er ákvæði um heyrnarrannsóknir og rannsóknir á talmeinum ásamt fræðsluskyldu stöðvarinnar. Efla þarf þennan þátt stöðvarinnar en til þessa hefur bæði skort sérmenntað fólk og nægjanlegt fjármagn. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur ráðið sérmenntað fólk í þessu skyni en gera þarf enn betur. Sú fræðsla sem þegar er veitt hefur mælst mjög vel fyrir. Reynslan hefur sýnt að þeir sem fá hjálpartæki þurfa mun meiri fræðslu, þjálfun og æfingu í notkun þeirra en veitt er í dag. Þá er það nýmæli að stöðin skuli safna tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf og er sérstaklega kveðið á um í frv. að söfnun slíkra upplýsinga skuli vera í samræmi við lög um persónuvernd.

Gert er ráð fyrir að stofnunin hafi fagráð í stað stjórnar. Fagráðið skal skipað fimm mönnum og skulu þrír hafa menntun og/eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar en tveir vera úr hópi notenda þjónustunnar. Fagráðið skal vera framkvæmdastjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun. Með þessu er horfið frá núgildandi fyrirkomulagi um sjö manna stjórn tilnefnda af ýmsum hagsmunaaðilum þar sem reynslan af því fyrirkomulagi hefur ekki verið nægilega góð eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og greinargerð ráðgjafafyrirtækisins. Þá er það einnig í samræmi við álit nefndar fjmrn. um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana.

Í frv. eru sett ákvæði sem nú eru í reglum og gjaldskrá heilbr.- og trmrn. en ekki er um efnislegar breytingar að ræða.

Að lokum er í frv. gert ráð fyrir því nýmæli að þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar eða hluti þeirrar þjónustu sem hún skal veita geti verið falin öðrum með sérstöku rekstrarleyfi frá heilbr.- og trmrh. Beiðni til ráðherra um rekstrarleyfi skulu fylgja upplýsingar um verksvið umsækjanda, hvar starfseminni er ætlaður staður ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skal fylgja greinargerð um væntanlegan rekstrarleyfishafa, fjárhagsástæður, starfsáætlun, stjórn, starfsfólk og rekstrarfyrirkomulag. Þá skulu fylgja upplýsingar um hversu mörgum einstaklingum er fyrirhugað að veita þjónustu og með hvaða kjörum. Upplýsingar þessar eru í samræmi við ákvæði núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu. Ráðherra skal því aðeins veita leyfi að ætla megi að umsækjandi geti leyst verkefni sitt á viðunandi hátt. Ætíð skal leita álits landlæknis á nauðsyn og gagnsemi stofnunar. Heilbrigðisyfirvöldum skal tryggður greiður aðgangur til eftirlits.

Í frv. er ákvæði um þær kröfur sem gerðar eru til menntunar starfsfólks væntanlegs rekstrarleyfishafa og er það til að tryggja að stöðin geti faglega innt af hendi þá þjónustu sem kveðið er á um í rekstrarleyfi.

Þá er gert ráð fyrir þátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta sem rekstrarleyfishafi útvegar. Er ákvæðinu ætlað að tryggja að neytendur greiði svipað gjald fyrir sambærileg tæki án tillits til þess hvort þau eru veitt af Heyrnar- og talmeinastöðinni eða af rekstrarleyfishafa.

Herra forseti. Ég hef nú í nokkuð ítarlegu máli fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og tel að hér sé um mál að ræða sem brýnt sé að fái úrlausn sem fyrst. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.