Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:11:28 (1373)

2001-11-08 15:11:28# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fyrir skemmstu fórum við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, í heimsókn á Heyrnar- og talmeinastöðina til að kynna okkur starfsemi hennar. Við sannfærðumst auðvitað um að þar er verk að vinna, að bæta þjónustuna og stöðu heyrnarskertra og heyrnarlausra í þjóðfélaginu. Og ég held að það sé öruggt að starfsmenn þar undir forustu ágæts forstöðumanns, Sigríðar Snæbjörnsdóttur, séu fullir áhuga á því að tekið sé á málefnum þessarar stofnunar og henni gert kleift að starfa lögum samkvæmt.

Ég hef lesið þetta frv. allvel, og gerði það nokkuð í tengslum við svar sem ég fékk frá hæstv. ráðherra við fyrirspurn sem ég og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir fluttum um bið eftir heyrnartækjum. Ég fagna því ýmsum ákvæðum sem fram koma í þessu frv. sem eru til þess fallin að bæta þjónustuna eins og um skipan fagráðs, um auknar forvarnir á sviði fræðslu, rannsókna og þróunarstarfa, sem ég held að sé mjög brýnt og hafi ekki verið sinnt sem skyldi í þessari stofnun hingað til, og kannski hefur henni ekki verið gert kleift að halda uppi slíkri forvarnavinnu sem er mjög nauðsynleg. Það er sem sagt viðleitni í þessu frv. til að víkka út og bæta þjónustuna. Öll þekkjum við það, og ekki síst núv. heilbrrh., fyrrv. formaður fjárln., að aukin þjónusta kostar peninga.

Þegar litið er á umsögn fjmrn. og fjárlagaskrifstofu eru tíunduð markmið frv. sem eru að bæta þjónustu við heyrnarlausa, og það sett upp í nokkru máli hér á baksíðu frv. en síðan segir að ekki sé gert ráð fyrir að lögfesting frv. hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þá veltir maður fyrir sér, ef verið er að bæta þjónustuna og verið er að reyna að stytta langa biðlista eftir heyrnartækjum, hver á þá að borga brúsann? Og þá stoppa ég einkum við tvennt í þessu frv. Það er í fyrsta lagi gjaldtökuákvæðið sem er í frv. og þá er spurningin: Eru hugmyndir ráðherrans að notendur þjónustunnar eigi að fara að greiða aukinn hlut í t.d. heyrnartækjum eða heyrnarmælingu eða þjónustu almennt við stofnunina?

Ég stoppa líka við það að þarna er sett inn í lögbókina að heimila einkaaðilum rekstur á þessari þjónustu, að annast þessa þjónustu að fullu eða að hluta, ef ég skil málið rétt. Ef ég fer í svar ráðherrans og skoða þetta mál í því samhengi kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurn okkar Ástu R. Jóhannesdóttur að núna bíða rúmlega 1.000 einstaklingar eftir 1.700 heyrnartækjum. Biðtími eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun er þrír mánuðir og eins árs bið til viðbótar ef viðkomandi þarf á heyrnartæki að halda. Því er haldið fram í svarinu að orðið sé við öllum beiðnum um heyrnartæki og heyrnarmælingar umsvifalaust fyrir börn þannig að þar sé enginn biðtími, og fagna ég því mjög. En biðtíminn eftir heyrnartækjum og heyrnarmælingum er sannarlega langur, og þá þurfum við að leita leiða til þess að stytta hann. Ég sé ekki að þetta frv. eða svar ráðherrans svari þeirri áleitnu spurningu.

[15:15]

Í svari ráðherrans kemur fram að sá sem þarf á tveim tækjum að halda greiðir fyrir þau á bilinu 9--16 þús. kr. í dag, allt eftir tegund tækisins, þ.e. ef hann greiðir 30% hlut, sem hann greiðir ef hann fær tvö heyrnartæki og við það miða ég þegar ég segi 9--16 þús. Ég sé ekki annað á svari heilbrrh. en að nú þegar sé hægt að kaupa sig út af biðlistum með því að leita til einkaaðila, sem þegar hefur tekið til starfa sem býður þessa þjónustu, og greiða fyrir hana á bilinu 150--310 þús. kr. fyrir tvö heyrnartæki sem ég býst við að séu þá sambærileg við þau sem eru kannski dýrust á þessum lista frá Heyrnar- og talmeinastöð sem voru 16.500 kr. Við erum því ekki að tala um neinn smámun á kostnaði við heyrnartækið eftir því hvort greitt er fyrir þjónustuna og hún er keypt af einkaaðila eða hvort það er í gegnum hið opinbera og Heyrnar- og talmeinastöðina. Þess vegna velti ég fyrir mér: Er hugmyndin sú að útrýma eða fækka biðlistum með því að vísa eða gera mögulegt fyrir fleiri aðila að kaupa sig út af þessum lista með því að kaupa sér dýr heyrnartæki hjá einkaaðilum eða á að auka gjaldtökuna? Vegna þess að þegar hæstv. ráðherra er spurður hvað það kosti ríkissjóð að eyða þessum biðlistum, þá kemur fram í svari hans að það kosti ríkissjóð 60 millj. kr. og 20 millj. kæmu frá notendum. Síðan segir í svari hæstv. ráðherra:

,,Til að koma í veg fyrir að biðlistar myndist í framtíðinni þarf til viðbótar því sem að framan greinir að koma til aukið rekstrarfé.`` Hér er ég að vitna í svar hæstv. ráðherra og talað er um að koma þurfi til viðbótar þessum 60 millj. aukið rekstrarfé vegna aukins hlutar ríkisins í heyrnartækjum til að sinna árlegri eftirspurn, 30 millj. og aukinnar starfsemi HTÍ, þ.e. 15 millj. kr. Og þegar ráðherrann er spurður hvaða áform hann hafi til að stytta biðlistana, þá kemur ekki fram í svari hæstv. ráðherra að setja eigi í þetta neina peninga af hálfu ríkisins heldur er talað um nokkra þætti sem séu gagnlegir eða eins og hér stendur:

,,Eftirfarandi leiðir eru taldar vænlegar til árangurs: Frá 1. september 2001 hefur verið skipulögð eftirvinna við sölu/úthlutun heyrnartækja tvo daga í viku.`` Ég skil þetta ekki alveg, ef ekki er hægt að kaupa heyrnartækin að sérstök eftirvinna þurfi að vera í gangi við sölu og úthlutun á heyrnartækjum.

Síðan segir: ,,Fyrirhugað er á næstunni að taka til gagngerrar endurskoðunar skráningar- og móttöku kerfi skjólstæðinga HTÍ og reyna að koma að fleiri skjólstæðingum á hverjum degi. Ef hægt væri að breyta vinnuferli þannig að að meðaltali væri tveimur fleiri sinnt á hverjum degi sem væru að bíða eftir heyrnartækjum og tveimur fleiri í heyrnarmælingum, mundu yfir 400 einstaklingar í viðbót fá heyrnartæki á ári og sömuleiðis yfir 400 einstaklingar í viðbót fá heyrnarmælingu og læknisskoðun. Þessar aðgerðir ná einungis fram að ganga ef aldrei þarf að bíða eftir fjármagni fyrir tækjum og tækjapantanir gætu farið í fastari farveg.``

Hér er sett fram áætlun sem byggir á því að fjármagn væri fyrir hendi.

Síðan kemur afar sérkennilegur liður í svari hæstv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Endurskoða má sumarleyfi starfsfólks, hugsanlega með því að loka stöðinni í 2--3 vikur næsta sumar þegar flestir eru hvort sem er frá vegna sumarleyfa og bjóða eingöngu upp á neyðarþjónustu.``

Er þetta liður í lausn þess að útrýma biðlistunum?

Aðrar áþreifanlegar tillögur sé ég ekki frá hæstv. ráðherra. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Eru áform uppi um að bæta fjármagni núna við fjárlagagerðina fyrir næsta ár til að hægt sé að útrýma biðlistunum? Ég var að vona að í framsöguræðu hæstv. ráðherra, sem var nokkuð ítarleg, mundi upplýsast frekar um það sem ég hef áhyggjur af heldur en fram kemur í greinargerðinni. Það er í fyrsta lagi gjaldtakan, hvort eigi að auka hana. Og í annan stað, hver áformin eru varðandi þessa einkaaðila. Ráðherrann verður þá að skýra það betur. Mér finnst ég aðeins finna óbragð þegar ég les greinargerð og svar ráðherrans. Er verið að opna fyrir einhverja einkavæðingu í þessum málaflokki að því er varðar heyrnarskerta og heyrnartæki og er verið að opna á það að fólk geti keypt sér einhvern forgang út af þessum biðlistum með því að kaupa rándýr heyrnartæki hjá einkaaðilum? Hvaða lagagrunn er verið að setja undir einkarekstur að því er þessa þjónustu varðar?

Hæstv. ráðherra hefur talað afar skýrt um það að hann væri mótfallinn einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu sem er auðvitað annað heldur en þjónustusamningar og einkarekstur sem stendur þá jafnfætis að því er varðar hina opinberu þjónustu um skilyrði og kröfur um þjónustu. Mér fannst á hæstv. ráðherra þegar hann talaði um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu að það kæmi aldrei til greina. Ráðherrann orðaði það svo ef ég man rétt að flokkspólitískar átakalínur væru að færast yfir í heilbrigðiskerfið og ég velti fyrir mér, er verið að opna einhverja glufu hér í frv.? Vera má að það sé misskilningur en það er alveg nauðsynlegt að ráðherrann skýri betur þetta hvort tveggja sem ég hef nefnt.

Mér finnst það vera til skammar fyrir stjórnvöld ef ekki á að veita aukið fjármagn núna á fjárlögum til að eyða biðlistum eftir heyrnartækjum. Enda kemur einmitt fram í svari ráðherrans að fólk hafi misst vinnu vegna heyrnarskerðingar sem líka leiðir til félagslegrar einangrunar og óöryggis. Við erum ekki að tala um háa fjárhæð. Við erum t.d. að tala um 1/3 af því sem fer í raunaukningu af rekstri aðalskrifstofa ráðuneytanna á næsta ári. Ef þeir spöruðu 1/3 af því sem þeir ætla að taka í raunaukningu, ráðherrarnir, á öllum aðalskrifstofunum, þá væri hægt að eyða biðlistum eftir heyrnartækjum. Þetta er ekki hærri fjárhæð en það.

Ég held að ráðherrann verði að svara því núna þegar við ræðum þetta mál við 1. umr. hvort einhver stefnubreyting sé að eiga sér stað varðandi þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta, hvort eigi að auka gjaldtöku vegna heyrnartækja og hvort einkaaðilar eigi í auknum mæli að taka við þessari þjónustu. Það stendur einmitt í frv. hæstv. ráðherra sem við erum að ræða hér, að vegna áhuga einkaaðila á að hefja sölu á hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og vandkvæða Heyrnar- og talmeinastöðvar við að uppfylla þörf fyrir heyrnartækin, þá ætli ráðherrann að opna fyrir möguleika einkaaðila á að annast þessa þjónustu. Ég skil ekki annað en það sé verið að opna með einhverjum hætti hér fyrir einkavæðingu. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Þá spyr ég --- að sjálfsögðu --- er gripið fram í af einum þingmanni Sjálfstfl.: Er þá meiningin að það fólk sem bíður eftir heyrnartækjum eigi að fara að kaupa þá þjónustu og greiða fyrir hana á bilinu 150--310 þús. fyrir tvö heyrnartæki eins og nú kostar hjá einkaaðilum?

Þetta var erindi mitt, herra forseti, í þennan ræðustól hvort með þessu sé verið að opna fyrir möguleika til að kaupa sér forgang að þjónustunni og auka kostnað þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar. Ég trúi því ekki að óreyndu og ég hef reynt hæstv. heilbrrh. að öðru og þess vegna bíð ég spennt eftir að heyra hvað hann hefur að segja um þessa þætti og vona í lengstu lög að þetta sé misskilningur hjá mér. Um þetta spyr ég ásamt því hvort von sé á viðbótarfjármagni nú á fjárlögum til þess a.m.k. að grynnka á biðlistum og helst eyða þeim.

Í frv. segir: ,,Frumvarpið var sent sextán aðilum til umsagnar. Umsagnir bárust frá níu aðilum og var tekið tillit til athugasemda þeirra við endanlega gerð frumvarpsins.`` Í hópi þeirra umsagnaraðila sem upp eru taldir eru: Félag heyrnarlausra, Heyrnarhjálp, Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagið.

Ég spyr um umsagnir þessara fjögurra aðila og hvort þeir hafi verið sammála efni frv. sem hér hefur verið flutt og hvort að fullu hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra. Ef það hefur ekki verið gert, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Til hvaða athugasemda, ábendinga eða tillagna af hálfu þessara fjögurra umsagnaraðila, sem ég hef nefnt, var ekki tekið tillit?