Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:27:59 (1375)

2001-11-08 15:27:59# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra taki frekar þátt í umræðunni og um hvað þessi opnun fyrir einkaaðila snýst og hvað hún þýði í raun og sanni heldur en hann hefur færi á að gera í stuttu andsvari. Okkur, sem erum á móti því að verið sé að setja aukna hlutdeild yfir á notendur þessarar þjónustu, er mjög umhugað um að það liggi alveg klárt og kvitt fyrir að hér sé engin stefnubreytng á ferðinni.

Hæstv. ráðherra talar um að Tryggingastofnun muni taka þátt í kostnaði þeirra einkaaðila sem halda uppi slíkri þjónustu, en þá bið ég ráðherrann að skýra það ef þessi heyrnartæki kosta svona mikið hjá einkaaðilum eins og fram kemur í svari hans eða á bilinu 150--310 þús. á móti 9--16 þús. kr. hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Hver á að brúa þetta bil? Þegar færa á þjónustuna til einkaaðila, er það þá hugmyndin og leiðin til að stytta biðlistana? Ef það er leiðin til að stytta biðlistana þá spyr ég: Hvað munu þá notendur heyrnartækja þurfa að borga ef þeir borga í dag á bilinu á milli 150--310 þús. kr. fyrir að fá heyrnartæki?

Ég fagna því og það verður auðvitað fylgst nákvæmlega með því að ekki eigi að auka hlutdeild sjúklinga að því er varðar þjónustuna, þ.e. ekki á að auka gjaldtökuna hjá notendum og ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherrans. Hæstv. ráðherra stendur í viðræðum við fjmrn. og væntanlega þá um viðbótarfjármagn til að stytta biðlistana og hann hefur svo sannarlega stuðning minn og örugglega fleiri og stjórnarandstöðunnar allrar í því að fá fram aukið fjármagn til að stytta biðlistana. Ég vænti því þess að við sjáum það við afgreiðslu fjárlaga að aukið fjármagn komi til að stytta biðlistana.