Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:32:38 (1378)

2001-11-08 15:32:38# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem fjallar um betur skilgreint hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og sömuleiðis breytt fyrirkomulag á yfirstjórn.

Hér hefur farið fram nokkur umræða við hæstv. heilbrrh. um hvað þetta frv. feli í sér og hefur verið vitnað hér í svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, svar sem var dreift í þinginu nú í vikunni. Áður en ég fer nánar út í frv. langar mig aðeins til að fylgja eftir þeirri umræðu sem fór fram milli ráðherra og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í andsvörum og spyrja nánar út í þessa greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar og kostnað sjúklinganna eða þeirra sem þurfa á heyrnartækjunum að halda.

Nú kemur fram í þessu svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn okkar að innkaupsverð á heyrnartækjum á vegum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar er frá tæpum 56 þús. kr. og niður í rúmar 30 þús. kr., en tækin sem fólk er að fá hjá þeim einkaaðila sem nú hefur hafið rekstur kosta frá 82--165 þús. kr. stykkið og ef viðskiptavinurinn kaupir tvö tæki fær hann 5% afslátt þannig að menn eru að greiða þar 150--310 þús. kr. fyrir heyrnartækin.

Mun Tryggingastofnun greiða þessi tæki niður þannig að viðskiptavinir greiði sambærilegar upphæðir og hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni?

Í heimsókn þeirri sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vísaði til þegar þingmenn Samfylkingarinnar heimsóttu Heyrnar- og talmeinastöðina á dögunum kom fram að í Danmörku, þar sem bæði er einkarekin þjónusta og ríkisrekin, er veittur styrkur til þeirra sem fara til einkaaðilanna, til þeirra sem fara fram fyrir og fá þjónustu strax hjá einkaaðilum. Og það er bara ákveðin upphæð sem er greidd þeim sem fara þá leiðina. Ég hefði því gjarnan viljað fá nánari skýringu hjá hæstv. ráðherra á því hvernig menn hafa hugsað sér þátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði við heyrnartæki og þá þjónustu sem einkaaðilarnir veita.

Eins og kom hér fram biðu 1.200 manns eftir þjónustu Heyrnar- og talmeinatöðvarinnar í janúar.

Í svari frá ráðherranum sem við vorum að fá segir að nú bíði um 1.000 einstaklingar eftir 1.700 tækjum og innkaupsverðið er 70 millj. kr. Menn hafa verið að bíða. Það er þriggja mánaða bið eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun. Síðan er u.þ.b. eins árs bið að auki eftir heyrnartæki.

Við höfum rætt áður þetta ástand sem hefur ríkt og sem hefur náttúrlega verið ófremdarástand í málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra. Og vegna þess hve þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar hefur verið slök hefur fólk verið nánast í einangrun, allt upp í ár eða lengur, vegna þess að það fær ekki heyrnartæki.

Hér segir að börn fái afgreiðslu strax og það er mjög gott. En þetta er ekki síður mikil skerðing á lífsgæðum aldraðra, fullorðins fólks sem þarf að bíða í algerri einangrun í ár eða lengur eftir því að fá heyrnartæki.

Í heimsókn okkar í Heyrnar- og talmeinastöðina hittum við nýráðinn forstöðumann, Sigríði Snæbjörnsdóttur, og sáum að þar var virkilega verið að taka til hendinni. Auðvitað lítum við til þess að þarna verði gerð bragarbót á og sérstaklega með nýjum lögum. En ég tek undir áhyggjur þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda í þá veru að í frv. er mjög mikið kveðið á um gjaldtöku. Ég vil ítreka það hér að mér finnst ekki viðunandi að þeir sem eru fatlaðir að því leyti að þeir þurfa á heyrnartækjum eða hjálpartækjum vegna heyrnarleysis að halda, sitji ekki við sama borð og aðrir fatlaðir þannig að þeir þurfi að greiða meira en aðrir fatlaðir. Nú hefur Tryggingastofnun og hjálpartækjamiðstöð hennar séð um úthlutun hjálpartækja til fatlaðra en hjálpartæki vegna heyrnarleysis hafa farið í gegnum Heyrnar- og talmeinastöðina. Eftir að hafa lesið í gegnum frv. velti ég því fyrir mér hvort ekki vanti inn í frv. t.d. ákvæði um að koma fyrir hjálpartækjum, setja þau upp, eins og gert er á vegum Hjálpartækjamiðstöðvar Tryggingastofnunar, t.d. varðandi uppsetningu á blikkljósum, brunaboðum, dyrabjöllum o.s.frv. sem heyrnarlausir þurfa sérstaklega á að halda og eru afgreidd í gegnum Heyrnar- og talmeinastöðina.

Sömuleiðis finnst mér að heyrnarlausir ættu ekki að þurfa að borga hærri upphæðir en aðrir fyrir grundvallartæki eins og vekjaraklukku eða brunaboða eða hvað það er sem þeir þurfa sérstaklega. Fötlunin á ekki að kosta einstaklinginn aukalega. Samfélagið á að koma með stuðninginn. Auðvitað er eðlilegt að menn greiði viðlíka upphæðir og heilbrigðir sem þurfa á þessum tækjum að halda.

En það er annað sem er mikilvægt og er komið inn á í frv. Það eru rannsóknirnar. Það er orðið mjög brýnt að efla rannsóknir í heyrnar- og talmeinum. Þessu hlutverki hefur mjög lítið verið sinnt. Það þarf t.d. að fara í skólana og sinna þar heyrnarmælingum. Það þarf að koma stuðningi fljótt að ef um heyrnarleysi eða heyrnarskerðingu er að ræða. Það kemur mjög við þroska barna t.d. Sömuleiðis þyrfti að sinna betur heyrnarmælingum úti um land. Heyrnarmælingaklefar eru víða í heilsugæslustöðvum um landið sem hafa staðið þar mikið til ónotaðir frá því að þeir voru settir upp fyrir einhverjum árum síðan. Sömuleiðis þyrfti ekki aðeins að fara í skólana, heldur þarf að fara í fyrirtæki og víðar til að kanna ástandið í þessum málum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í einn hóp sem ég get ekki séð beint að tekið sé á þjónustu við og það eru heyrnarsuðsþolendur. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra heyrir í mér þar sem ég sé að hann er kominn í símann í hliðarherbergi og er að tala við einhvern annan. Mér þætti vænt um ef ... (Gripið fram í: Það suðar í eyra.) Já, það suðar eitthvað í eyra hans í símanum. Ég ætla að vona að hann líði ekki fyrir heyrnarsuð því að það eru hræðileg örlög að lenda í því. Ég mun spyrja hann að því betur þegar hann kemur úr símanum.

Ýmis fleiri atriði væri full ástæða til að ræða hér varðandi Heyrnar- og talmeinastöðina og þjónustu hennar. Við rannsóknir og greiningu og greiningarstarfið þarf t.d. að halda öllum upplýsingum vel til haga. Það hefur ekki verið unnt. Ég veit að Félag heyrnarlausra hefur verið að reyna að safna slíkum upplýsingum um þá sem hafa greinst heyrnarlausir. En Félag heyrnarlausra hefur ekki fengið leyfi til að halda þeim upplýsingum til haga eða fá þær upplýsingar. Ýmsir úti í samfélaginu eru að veita þjónustu og eru með úrræði fyrir heyrnarlausa. Því er mikilvægt að koma þeim upplýsingum á framfæri áfram. Ég veit að það leggur Félag heyrnarlausra mikla áherslu á. En ráðgjöf hingað til hefur verið alltilviljunarkennd svo ekki sé meira sagt.

Ég veit að félagið Heyrnarhjálp hefur líka sent inn athugasemdir til hæstv. ráðherra um þetta mál og þjónustuna hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Ég geri ráð fyrir að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda. Við munum kalla þessa hópa til í heilbr.- og trn. til að heyra nánar um afstöðu þeirra.

En það er alveg ljóst að ef ráða á bót á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í þessum málum, þarf aukið fjármagn. Það er alveg ljóst. Ég vil fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, þ.e. að fjárveitingar séu á aukafjárlögum til að greiða niður skuldir stöðvarinnar. Vissulega þarf aukna fjármuni. Ég furðaði mig á því þegar ég las í gegnum frv. að fjárlagaskrifstofa fjmrn. skuli segja í umsögn sinni að ekki sé gert ráð fyrir því að lögfesting frv. hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þegar svona yfirlýsingar koma frá fjmrn. vakna náttúrlega upp grunsemdir í huga manns um að farið verði í auknar gjaldtökur, sem hæstv. ráðherra hefur sagt hér að hann muni ekki gera. (Gripið fram í: Hvernig á að standa undir þessu?) Já, það er auðvitað spurningin. Hvernig á að standa undir öllum þessum umbótum ef það á ekki að kosta neina fjármuni?

Auðvitað kostar þetta fjármuni. Það var alveg ljóst og kom mjög skýrt fram í heimsókn okkar í Heyrnar- og talmeinastöðina á dögunum að þetta kostar þó nokkuð mikla peninga enda hefur þessi þjónusta verið í lamasessi og ekki verið sinnt sem skyldi.

Ég vildi gjarnan nefna annað áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, og það er varðandi öll þessi ákvæði um gjaldtöku. Þar er sagt að ráðherra skuli setja gjaldskrá að höfðu samráði við framkvæmdastjóra og fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Hvað með samráð við hagsmunasamtök eins og Heyrnarhjálp, Félag heyrnarlausra og aðra? Er ekki full ástæða til þess að hafa líka samráð við þá?

Sömuleiðis vil ég nefna varðandi fagráðið að náttúrlega er mjög mikilvægt að í fagráðinu séu aðilar sem hafi sérþekkingu á þessum málaflokki, heyrnar- og talmeinum. Það kom einnig fram í máli starfsmanna sem við hittum að ekki hafa verið nógu margir sérfræðingar að störfum. Auðvitað hafa verið þarna ákveðnir sérfræðingar og hafa gert vel. En það þarf auðvitað að bæta ástandið til þess að geta sinnt þessu því það verður aldrei viðunandi að fólk þurfi að bíða í einangrun og þögn jafnvel í heilt ár eftir heyrnartækjum. Það er ekki boðlegt.

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvernig eigi að standa undir þessum kostnaði. Það er verið að tala um auknar rannsóknir. Það þarf að fara í skólana og mæla. Það þarf að fara í fyrirtækin. Þetta kostar allt saman peninga. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Í svari um hvernig ráðherra ætlar að stytta biðlista og bæta ástandið komu fram upplýsingar um atriði sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taldi hérna upp, þ.e. eftirvinna í tvo daga, að endurskoða skráningu og móttökukerfi o.s.frv., endurskoða sumarleyfi og efla læknisþjónustuna þannig að alltaf sé læknir til staðar. Þetta er auðvitað allt góðra gjalda vert. En ég held að meira þurfi til. Og þetta sem nefnt er hér kostar auðvitað líka peninga. Ég vildi því gjarnan fá, herra forseti, svör frá hæstv. ráðherra um þessi atriði. Ég ítreka það að 1.000 einstaklingar bíða eftir 1.700 tækjum sem kosta að innkaupsverði 70 millj. kr.