Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:07:37 (1383)

2001-11-08 16:07:37# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég fagna því að verið sé að skoða það í ráðuneyti hans að rýmka rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Það mál er í skoðun á borði ráðherra og ég býst þá við að ráðherrann sé að vinna að einhverjum raunhæfum lausnum í því máli.

Ég fagna því jafnframt að ráðherrann er tilbúinn að beita sér fyrir því að skoða sérstaklega bætta stöðu barna sem þurfa á gleraugum að halda. Ég held að það sé mjög afgerandi munur á réttarstöðu sjónskertra barna og barna sem eru heyrnarskert. Það getur komið verulega niður á félagslegri stöðu barna, ekki síst þeirra sem eru í skóla og þurfa á gleraugum að halda. Ég hef flutt langt mál um það hér á þingi og ég fagna því að ráðherrann er jákvæður gagnvart því að skoða réttarstöðu þessara barna og hvernig hægt er að bæta þjónustu við börn sem þurfa á gleraugum að halda.

Ráðherrann talar mjög skýrt að því er varðar gjaldtökuna. Ráðherrann ætlar að verja það að ekki eigi að auka hlutdeild notenda í þjónustunni varðandi kaup á tækjum eða annarri þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar fyrir heyrnarskerta. Ég treysti fyllilega orðum ráðherra, af því að hann talaði mjög skýrt og afdráttarlaust í því efni. En við munum auðvitað fylgjast með þegar endurskipulagningin hefur farið fram hvernig staðið verður að fjármögnun á þessari bættu þjónustu sem frv. kveður á um.

Ég tek það líka svo, annars munum við skoða það sameiginlega við lokaafgreiðslu fjárlaga, að ráðherrann sé að beita sér fyrir auknu fjármagni til að hægt sé að stytta eða eyða biðlistum hjá þeim þúsund einstaklingum sem nú bíða eftir heyrnartæki.