Samningsbundnir gerðardómar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:10:00 (1384)

2001-11-08 16:10:00# 127. lþ. 25.9 fundur 203. mál: #A samningsbundnir gerðardómar# (fullnusta erlendra gerðardóma) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um samningsbunda gerðardóma, nr. 53/1989.

Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum til að unnt verði að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um viðurkenningu og fullnustu á erlendum gerðardómum, sem gerður var í New York 10. júní 1958 og tók gildi 7. júní 1959. Þá er einnig að finna í frv. smávægilegar breytingar á ákvæðum laganna um aðför til fullnustu á úrlausnum gerðardóma og sáttum gerðum fyrir þeim.

Aðildarríki samningsins, sem gjarnan er nefndur New York samningurinn, eru nú 121 og eru þar á meðal öll vestræn ríki. Samningurinn hefur það að meginmarkmiði að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkjanna á gerðardómum þannig að þeir öðlist réttaráhrif og verði fullnægt í samræmi við réttarfarsreglur þar sem fullnustu er leitað.

Í samningnum er heimild fyrir aðildarríki til að lýsa því yfir að þau muni einungis láta samninginn gilda um viðurkenningu á fullnustu gerðardóma sem eru kveðnir upp í öðru samningsríki. Langflest aðildarríki samningsins hafa nýtt sér þessa heimild og á meðan Ísland hefur ekki gerst aðili að samningnum hefur það í för með sér að engin trygging er fyrir því að gerðardómar kveðnir upp á Íslandi verði viðurkenndir erlendis, né heldur að gerðardómar kveðnir upp í öðrum ríkjum verði viðurkenndir eða þeim framfylgt hér á landi.

Um þessar mundir stendur yfir í utanrrn. undirbúningur að þáltill. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samninginn og gert er ráð fyrir að hún verði lögð fyrir Alþingi á næstunni. Sú breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma sem leiðir af samningnum er að þegar mál er höfðað til ógildingar á gerðardómi er dómara gefin heimild til að fresta réttaráhrifum gerðardóms og binda slíka frestun við að lögð verði fram trygging fyrir efndum skuldbindingar gerðardómsins. Hljóðar 1. gr. frv. á um þetta.

Í 2. og 3. gr. frv. er lagt til að ákvæði laganna hafi að geyma ítarlegri tilvísun til laga um aðför þannig að ljóst verði eftir hvaða reglum þeirra laga gerðardómi verði fullnægt með aðför. Núgildandi ákvæði laganna eru að þessu leyti ófullnægjandi.

Herra forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og til 2. umr.