Velferðarsamfélagið

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:12:57 (1385)

2001-11-08 16:12:57# 127. lþ. 25.6 fundur 20. mál: #A velferðarsamfélagið# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins.

Hér er endurflutt þingsályktunartillaga sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa að stofni til flutt á tveimur undangengnum þingum en fékk í hvorugt skiptið framgang. Í þessari nýju tillögu hefur fáu verið breytt frá síðasta flutningi hennar en ýmsir útreikningar sem fram koma í greinargerð hafa verið reiknaðar aftur auk þess sem nokkrar breytingar koma fram í texta hennar.

Meðal helstu nýmæla sem stefnumótun Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á sviði velferðarmála felur í sér má nefna:

1. Horfið verði frá ,,bóta- og ölmusuhugsunarhætti`` sem enn gætir allt of mikið í almannatryggingakerfinu og þess í stað tekið upp hugtakið ,,samfélagslaun``.

2. Sjálfstæður réttur hvers einstaklings til mannsæmandi afkomu verði styrktur og sérstaklega skilgreindur. Af þessu leiðir að horfið verði með öllu frá niðurlægjandi viðmiðun við tekjur maka hjá öryrkjum og aldrei gengið svo langt í slíkum tekjutengingum eða viðmiðunum að hver og einn njóti ekki fullrar sjálfsvirðingar sem einstaklingur og búi við fullnægjandi afkomuöryggi.

3. Endurskoðun og samræming lífeyrisréttinda, almannatrygginga og skattkerfis verði forgangsmál og málaflokkur lífeyrisréttinda, almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði sameinaður í einu ráðuneyti.

4. Sett verði lög sem banna mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli aldurs.

6. Hafið verði á nýjan leik átak í byggingu félagslegra leiguíbúða og stuðningur við lágtekjufólk vegna húsnæðiskostnaðar samræmdur og aukinn.

7. Komugjöld og sjúklingaskattar verði afnumin.

8. Hugtakið ,,jafnrétti til þjónustu`` verði grundvallarregla heilbrigðiskerfisins.

9. Sett verði ákvæði í lög sem tryggja að einkaskólum verði ekki hyglað á kostnað opinbers skólastarfs.

10. Öllum verði tryggður réttur og möguleiki á samfelldu námi til 18 ára aldurs í heimabyggð.

11. Gert verði stórátak í aðgengismálum hreyfihamlaðra og réttindamálum fatlaðra með hliðsjón af viðmiðunarreglum Sameinuðu þjóðanna.

12. Hafin verði barátta fyrir styttingu vinnuvikunnar.

13. Sérstakt forgangsverkefni á næstu árum verði að útrýma kynbundnum launamun.

14. Skattþrepum í tekjuskatti verði fjölgað.

[16:15]

Með þessari þingsályktunartillögu leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til aðgerðir í nokkrum þeirra mála sem hvað brýnast er að takast á við í íslensku samfélagi um þessar mundir. Það ber þó að ítreka að hér verður ekki látið staðar numið, þingflokkurinn mun halda áfram að vinna að tillögum um úrbætur og endurreisn velferðarkerfisins til hagsbóta fyrir alla Íslendinga og leggja línur fyrir framtíðarþróun velferðarsamfélags á Íslandi.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að líta heildstætt á velferðarþjónustuna og vill ráðast í lagabreytingar með skýra og markvissa framtíðarsýn.

Þess má geta að við höfum lagt fram tiltekin þingmál sem eru í samræmi við þessa stefnulýsingu, t.d. um að skapað verði eitt ráðuneyti sem haldi utan um almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar sem ég nefndi áðan. Við höfum verið með þingmál í húsnæðismálum, varðandi réttarstöðu fólks í almannatryggingakerfinu og þannig mætti áfram telja. En hér setjum við saman í eitt þingmál þá stefnumótun sem ég vék að áðan.

Komið hefur fram í ýmsum könnunum að félagslegrar mismununar sé farið að gæta innan velferðarþjónustunnar hér á landi og það er nokkuð sem Íslendingar eiga ekki að sætta sig við. Gerð var könnun á vegum landlæknisembættisins fyrir fáeinum árum þar sem þetta kom berlega í ljós og þar var staðhæft að tekjulágt fólk veigraði sér við því að leita læknisaðstoðar, t.d. til tannlækna, af þeim ástæðum að það hafði ekki til þess fjármuni.

Það er ljóst að þrátt fyrir ýmsar augljósar framfarir á sviði læknavísindanna hefur orðið afturför í velferðarmálum á ýmsan hátt, sérstaklega á 10. áratugnum. Þar hefur verið tekin upp gjaldtaka, bæði innan heilbrigðis- og skólakerfis, sem hlýtur að flokkast undir afturför. Og á sama tíma og klyfjar eru settar á fólk sem leitar til velferðarþjónustunnar hafa ráðstöfunartekjur fólks verið skertar með því að auka skattbyrðar. Þannig hefur staðgreiðsluhlutfall skatta hækkað um 9% frá því að staðgreiðslan var tekin upp. Árið 1988 var staðgreiðsluhlutfall skatta 35,2%. Núna er staðgreiðsluhlutfall skatta 38,76%. Ríkisstjórnin gumar af því að hún sé að lækka skatta og hafi verið að lækka skatta á einstaklinga á liðnum árum og það má til sanns vegar færa þegar litið er aftur til árabilsins 1993--1997. Þá var tekjuskattshlutfallið yfir 40%, reis hæst á árinu 1997 þegar það var 41,98% en engu að síður er skatthlutfallið nú svipað og það var í byrjun 10. áratugarins og talsvert hærra en það var tveimur árum áður, 1988, þegar staðgreiðslan var tekin upp.

Jafnframt hefur verið settur á hátekjuskattur, 5%, sem síðan var hækkaður upp í 7% 1997. Það sem ríkisstjórnin hyggst gera núna er að hækka tekjuviðmið fyrir hátekjuskattinn um 15%, ef ég man rétt, en þessi tekjuviðmið munu núna vera í rúmum 320 þús. kr. á mánuði.

Jafnframt þessu hafa skattleysismörkin í raun lækkað og það hefur gerst á tvennan hátt. Annars vegar hefur tekjuskattsprósentan verið þyngd og persónuafslátturinn ekki hækkaður til samræmis en það veldur því að skattleysismörkin lækka í raun. Hin ástæðan er sú að skattleysismörkin hafa ekki verið látin fylgja almennri launaþróun. Á þetta hefur margoft verið bent.

Við höfum líka bent á það að velferðarkerfið stendur hér ekki eins traustum fótum og það gerir í þeim ríkjum sem við helst berum okkur saman við, Norðurlöndunum. Norðurlöndin verja mun hærra hlutfalli af sinni landsframleiðslu til velferðarmála en við gerum, og munar þar talsvert miklu þannig að þegar íslenskir ráðamenn vísa í niðurskurð á Norðurlöndum og segja að við séum að gera eins og hinir eru menn ekki að tala um samanburðarhæfar stærðir.

Við höfum bent á mikilvægi þess að hafa trausta samfélagsþjónustu. Hún gagnast öllu samfélaginu. Stundum er atvinnurekstri á markaði og opinberri velferðarþjónustu stillt upp sem andstæðum. Þetta tel ég vera rangt að gera. Þegar gerð hefur verið könnun á því hverju atvinnurekendur leggja mest upp úr til að atvinnurekstur þeirra fái dafnað, til að þeir geti komið sér fyrir eða sett fyrirtækið niður, vísa þeir jafnan til velferðarþjónustunnar. Þeir segja að þeir þurfi að hafa skóla á svæðinu, góða heilsugæslu, góðar samgöngur, að löggæsla sé góð, öldrunarþjónustan sé í lagi o.s.frv. Þetta kom m.a. fram í könnun sem danska atvinnumálaráðuneytið gerði árið 1996 og að sjálfsögðu þarf þetta stoðkerfi samfélagsins að vera í góðu lagi til að atvinnureksturinn fái dafnað. Við höfum bent á að sú stefna sem hér hefur verið rekin hefur orðið til þess að veikja samfélagsþjónustuna og veikja byggðarlögin og það undarlega hefur reyndar gerst á liðnum árum að hlutverkaskipti hafa orðið í stjórnmálunum. Einarðir vinstri menn sem áður töluðu fyrir miklum ríkisafskiptum í efnahagslífinu gera það ekki lengur. Þeir leggja áherslu á trausta og góða samfélagsþjónustu en markaðshyggjumennirnir, hægri mennirnir, eru talsmenn hinna miklu ríkisafskipta og nægir þar að nefna ákafa ríkisstjórnarinnar og þeirra stjórnmálaflokka sem að henni standa um að reisa álver og stóriðjuver og leysa á þann hátt atvinnumál á landsbyggðinni. Við höfum hins vegar viljað fara aðra leið, styrkja samfélagsþjónustuna, styrkja velferðarþjónustuna og búa þannig í haginn fyrir kröftugt atvinnulíf. Þarna hefur orðið ákveðin hlutverkaskipting.

Til þess að fjármagna velferðarþjónustuna þarf að sjálfsögðu að leggja á skatta og ég held að almennt séu Íslendingar reiðubúnir að greiða skatta ef þeir vita að þeim er vel varið. Og þeim er vel varið með því að byggja upp góða velferðarþjónustu, gott heilbrigðiskerfi og menntakerfi, og flest viljum við, held ég, hafa góðar almannatryggingar og búa mun betur að öldruðum og einnig að örykjum en nú er gert. Þar erum við farin að tala ekki aðeins um peninga, við erum að tala þar um mannréttindi fólks. Á vegum Félagsvísindastofnunar var fyrir fáeinum árum gerð könnun á vilja þjóðarinnar í þessum efnum og þar kom fram að yfirgnæfandi meiri hluti fólks vildi fjármagna þessa þjónustu með sköttum en ekki með notendagjöldum. Skattar hér á landi eru mun minni en þeir eru í samanburðarlöndum okkar, miklu minni en þeir eru á Norðurlöndum, miklu lægra skatthlutfall en á Norðurlöndum og er nánast sama að hvaða skattstofni menn beina sjónum sínum. Þannig er tekjuskattur einstaklinga á Norðurlöndum mun hærri en hér og það gildir einnig um skatta fyrirtækja. Við erum líka með lægra skatthlutfall en gerist í Evrópusambandinu og hjá OECD, reyndar að undanskildum tekjuskatti einstaklinga. Við erum með heldur hærri tekjuskatta einstaklinga en gerist hjá OECD og einnig Evrópusambandinu. En Norðurlöndin eru þar langt fyrir ofan.

Herra forseti. Tími minn er þrotinn og lýk ég hér máli mínu.