Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:39:59 (1387)

2001-11-08 16:39:59# 127. lþ. 25.8 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að taka undir með 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Árna R. Árnasyni, en þess má geta að þriðjungur þingsins stendur að tillögunni. En fyrir hópnum og frumkvöðull að málinu er 1. flm. tillögunnar.

Við leggjum til að komið verði á mjög víðtæku forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi. Jafnframt að hafinn verði undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttu við aðrar algengustu tegundir krabbameina hér á landi og hefja síðar skipulagt og reglubundið forvarna- og leitarstarf vegna þeirra.

Hvers vegna er forvarnastarf mikilvægt? Eins og fram kom í máli hv. þm. Árna R. Árnasonar er með því móti hægt að bæta heilsufar fólks og forða því frá að verða þessum alvarlega sjúkdómi að bráð og getur þannig bjargað lífi fólks. Síðan hefur þetta einnig sparnaðargildi í för með sér þótt við einblínum að sjálfsögðu fyrst og fremst á fyrri þáttinn.

Í grg. með þáltill. kemur fram að krabbamein í maga hafi verið á undanhaldi á síðustu áratugum, hafi fallið um 70% hjá báðum kynjum frá sjötta áratugnum. Þetta er mjög athyglisvert. Þess er getið í grg. að þessu valdi án efa breytt mataræði þjóðarinnar, minni neysla á söltuðum og reyktum mat og aukin neysla grænmetis og ávaxta. En einnig er talið að þetta megi þakka lyfjameðferðum við magabólgum sem eru kunnar að því að geta valdið krabbameini. En þetta segir okkur líka hve mikilvægt er að við séum meðvituð um þessa þætti, samhengið á milli mataræðis og sjúkdóma, svo dæmi sé tekið. Og þetta er einnig þáttur í forvarnastarfinu að sjálfsögðu.

Við gerum ráð fyrir eða þess er getið í grg. að forvarna- og leitarstarf gæti byggst á því að farið verði í smiðju til Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands og annarra heilbrigðisstofnana til að finna fólk í áhættuhópum frá skilgreindu aldursmarki.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að ráðast í fræðsluátak um þá sjúkdóma sem starfið beinist að þar sem markmiðið er að auka vitund og þekkingu almennings á sjúkdómum í meltingarvegi.

Við teljum í þriðja lagi mikilvægt að efla þekkingu starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar á sjúkdómum í meltingarvegi.

Í fjórða lagi segjum við að mikilvægt sé að halda skipulagðri skráningu á þessum sjúkdómum.

Hv. 1. flm. hefur gert ítarlega grein fyrir þessu þingmáli. Ég endurtek að ég kem hingað fyrst og fremst upp til að lýsa mjög eindregnum stuðningi við að það nái fram að ganga.