Málefni Raufarhafnar

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:18:23 (1405)

2001-11-12 15:18:23# 127. lþ. 26.2 fundur 123#B málefni Raufarhafnar# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil ítreka hve alvarleg staðan er á Raufarhöfn og hvað er að gerast þar þessa dagana. Um þessar mundir er, eins og ég gat um áðan, Landsbankinn að segja upp fjórum stafsmönnum á svæðinu og það á að taka gildi nú um næstu helgi. Þá verður þjónusta bankanna, bæði á Kópaskeri og Raufarhöfn, skert þannig að þar verður aðeins opið tvo dagparta í viku.

Ég leyfi mér því, herra forseti, og spyrja: Hafa þessar aðgerðir einar sér, sem eru gríðarlega miklar aðgerðir í svo litlu byggðarlagi, t.d. verið kynntar í umræðunni í ríkisstjórn eða í umræðum við hæstv. byggðamálaráðherra, sem reyndar er ekki hér til staðar? En bara þetta tiltekna mál, þær breytingar sem fyrirhugaðar eru þessa dagana, hafa gríðarleg áhrif og ekki einungis á þjónustuna heldur líka sálræn áhrif. Hefur það verið kynnt í ríkisstjórn?