Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:37:15 (1417)

2001-11-12 15:37:15# 127. lþ. 26.2 fundur 126#B loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Spurningar mínar gáfu ekki tilefni til slíks æsings sem kom fram í svari hæstv. ráðherra. Þessa ræðu hefur hæstv. umhvrh. flutt áður hér úr ræðustóli og öllum er kunnugt um þann ágreining sem er á milli hæstv. ráðherra og þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessum efnum.

En ég fékk ekki svar við eftirfarandi spurningu: Hversu stóra heimild til aukningar í losun gróðurhúsalofttegunda kemur hæstv. ráðherra með í vasanum frá Marrakesh? Eru menn að tala um það sem heyrst hefur í fjölmiðlum að hér sé um að ræða 75% aukningu í heildina á losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi utan losunarkvóta Kyoto-bókunarinnar? Það er svar af því tagi sem ég vil fá frá hæstv. umhvrh. þ.e. hvort hún geti staðfest þá tölu, því að það er auðvitað umtalsvert magn. Og mér þykir það ankannalegt hjá hæstv. ráðherra að tala um að búið sé að útvatna samninginn af hálfu Ástrala, Japana, Rússa og Kanadamanna, en hún gengst ekki við eigin ábyrgð á þeirri útvötnun sem íslenska ákvæðið hefur í för með sér.