Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:39:59 (1419)

2001-11-12 15:39:59# 127. lþ. 26.2 fundur 126#B loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra hefur í raun svarað spurningu minni með því að staðfesta að með íslenska ákvæðinu, með 10% aukningunni sem Kyoto-bókunin heimilaði okkur og með um það bil 10% aukningu sem bindingarákvæðin virðast heimila okkur, þá eru Íslendingar að fá í meðgjöf í Kyoto-bókuninni 75% aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda án þess að þurfa að kaupa losunarkvóta fyrir það. Ég lít svo á að svar hæstv. umhvrh. hafi staðfest þessar upplýsingar.

En í framhaldi mætti spyrja: Þegar hæstv. ráðherra kom heim af Bonn-þinginu fyrir skemmstu, þá var hún leið yfir því að nú virtist markmiðið með Kyoto-bókuninni vera komið niður úr mínus 5% á heimsvísu á skuldbindingartímabilinu niður í mínus 2--3%. Þetta gefur tilefni til að spyrja: Hversu mikið koma ríkin til með að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á skuldbindingatímabilinu frá 2008--2012 miðað við þá miðurstöðu sem fundurinn í Marrakesh skilaði?