Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:48:16 (1423)

2001-11-12 15:48:16# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þetta er í sjálfu sér ofur einfalt mál, og einföld spurning sem lögð var fyrir hæstv. ráðherra. Hann var spurður að því hverjum ríkiseignir voru seldar og hvert andvirðið var.

Hæstv. ráðherra hefur reynt að koma sér hjá því að svara þessum spurningum, og borið fyrir sig að honum sé óskylt að upplýsa um þetta. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að ef svo er komið fyrir þeirri stofnun, hinu háa Alþingi, að menn geti ekki aflað upplýsinga um það hvað hæstv. ráðherrar eru að gera, hverjum þeir eru að afhenda verðmæti ríkisins, er mjög illa komið fyrir okkur. Og ég trúi því ekki enn að hæstv. ráðherra komi ekki fram með þessar upplýsingar og birti þær hér eins og honum ber að gera, og ég held líka að hæstv. ráðherra verði að skýra það hví í svari hans komi fram fullyrðing sem ekki á rétt á sér, um að honum sé ekki skylt að svara þessari fyrirspurn. Það kemur fram í nefndadeild Alþingis að þetta standi ekki í þeirri skýrslu sem vitnað er til. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.

Þetta er orðið dálítið sérstætt, virðulegi forseti, því að þannig er fyrir okkur komið að farþegalistar hverfa þegar það á við og það er ekki einu sinni hægt að fá að vita hverjum hæstv. ráðherrar eru að selja ríkiseignir. Eina ástæðan sem ég sé fyrir leyndinni, og er ekki réttlætanleg, er sú að menn hljóta að vera að fela eitthvað. Hæstv. ráðherrar hljóta að vera að fela eitthvað --- menn hljóta að hafa eitthvað að fela og í því felast væntanlega þau mannréttindi sem hæstv. ráðherra vísaði til, að verið sé að selja einkavinum eitthvað sem ekki þolir dagsins ljós.