Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:52:01 (1425)

2001-11-12 15:52:01# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér sýnist að hér sé að koma í ljós að hæstv. ráðherra hafa orðið á alvarleg mistök. Hann hefur greinilega gefið þinginu rangar og villandi upplýsingar, vonandi ekki vísvitandi, en hæstv. ráðherra ber eftir þessar umræður að fara ofan í þetta mál og gera Alþingi grein fyrir hinu rétta í því.

Í fyrsta lagi liggur alveg fyrir að það er rangt sem ráðherrann sagði enda mátti öllum vera ljóst að það er ekki hægt að bera saman stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna og rétt almennings samkvæmt upplýsingalögunum. Það held ég að ráðherrann hafi viðurkennt núna þegar hann kom í ræðustól.

Í annan stað er hæstv. ráðherra uppvís að því að skýla sér á bak við mannréttindi og persónuvernd þegar hann vill ekki upplýsa um það sem spurt var í fyrirspurninni, þ.e. jarðakaup og verð á þeim. Síðan kemur bara í ljós að þetta liggur fyrir í ríkisreikningi. Það er alveg með ólíkindum að ráðherrann skuli ekki vita betur eða hafa ekki betri ráðgjöf í sínu ráðuneyti, að fara með slíka vitleysu í ræðustól.

Það er alveg ljóst að þessu máli er ekki lokið. Ég fer fram á það að hæstv. ráðherra geri grein fyrir hinu rétta í þessu máli þegar hann hefur fengið ráðrúm til þess að skoða mistökin sem hann hefur gert, og mér sýnist alveg blasa við að hæstv. ráðherra skuldi þinginu afsökunarbeiðni, a.m.k. fyrirspyrjanda sem hann hefur greinilega orðið uppvís að að gefa rangar og villandi upplýsingar.