Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 16:04:10 (1432)

2001-11-12 16:04:10# 127. lþ. 26.95 fundur 130#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Menn skulu hafa það sem sannara reynist. Mér fannst óþarfi að vera með þessar hnýtingar í stjórn Sjúkraliðafélagsins þó að hún kæmi á fund Samfylkingarinnar. Það var að beiðni Samfylkingarinnar. Við höfum það nefnilega fyrir venju að óska eftir viðræðum við þá aðila sem eiga í vinnudeilum til að reyna að komast að því hvaða vandi er á höndum í deilunum og fylgjast með. Þannig var það með sjúkraliðana. Það lá fyrir og við vissum af því að beðið hafði verið um viðræður við nefndina og ekkert orðið af því. Skýringarnar eru ýmsar á því af hverju ekki var orðið við þessu strax. Hv. þm. er búinn að gera grein fyrir því.

Ég tel að það hefði verið ástæða til þess að nefndin hefði kallað í þessa forustumenn þegar fyrir lá að mikill vandi var á höndum í sambandi við þessa kjaradeilu. En mér finnst óþarfi að menn séu að rífast um þetta mál hér því að nefndin á auðvitað að ræða þessi mál líka. Það skiptir auðvitað máli, ekki bara vegna kjaradeilunnar sjálfrar heldur vegna framtíðar þeirrar starfsgreinar sem þarna er um að ræða. Mönnum er mikill vandi á höndum ef þeim tekst ekki að leysa þessi mál eins og nú stefnir í.