Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:06:26 (1440)

2001-11-12 17:06:26# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frv. um skipan opinberra framkvæmda og vona að þessu máli verði vel tekið í efh.- og viðskn. og þar fái það góða umfjöllun, vegna þess að ég tel að í frv. sé ýmislegt sem sé til verulegra bóta og geri okkur betur í stakk búin til þess að hafa það aðhald og eftirlit með opinberum framkvæmdum en við ella gætum ef ákvæði þessa frv. væru ekki til staðar.

Ég treysti því að stjórn og stjórnarandstaða fari vel yfir frv. vegna þess að það er auðvitað okkar allra, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að tryggja að hér sé vel farið með peninga því að ávallt eru miklir peningar í húfi þegar um er að ræða opinberar framkvæmdir.

Ég vildi líka af þessu gefna tilefni, þeim orðaskiptum sem fóru hér fram milli 4. og 5. þm. Vesturl., segja nokkur orð. Mér fannst nokkuð liggja í orðum hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að hann kenndi Framkvæmdasýslu ríkisins um það sem úrskeiðis hefði farið varðandi byggingu skrifstofuhúsnæðis Alþingis.

Ég held að það sé ekki alveg sanngjarnt að stilla málunum þannig upp. Ég held einmitt varðandi það sem fór úrskeiðis hér við skrifstofuhúsnæði sjálfstæðismanna, að því hafi verið um að kenna að lögin og ákvæðin um skipan opinberra framkvæmda hafi ekki verið þannig úr garði gerð að Framkvæmdasýslan gæti haft það eftirlit og aðhald sem henni ber að gera.

Ég spyr t.d. um þá framkvæmd, þegar hún fór af stað, við skrifstofuhúsnæðið í Austurstrætinu: Var komið t.d. grænt ljós frá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir? Hafði hún heimilað að hefja mætti þessa byggingu? Hafði hún farið yfir frumathugun og áætlunargerð um framkvæmdina eins og hún á að gera lögum samkvæmt? Og hafði hún gefið grænt ljós á að fjármagn væri til staðar til þess hefja mætti framkvæmdir við þetta húsnæði? Ég held að svarið í öllum þessum tilvikum sé nei.

Þess vegna finnst mér of einfalt, herra forseti, að stilla málinu þannig upp að það sem úrskeiðis fór við byggingu á þessu skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi hafi verið Framkvæmdasýslunni að kenna. Ég vildi láta það koma hér fram af því mér finnst ósanngjarnt að málum sé stillt þannig upp varðandi Framkvæmdasýsluna.

Ég held einmitt um það sem gerðist varðandi skrifstofuhúsnæði Alþingis að menn eigi að láta það sér að kenningu verða og standa öðruvísi að málum, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson lýsti, þ.e. að hér eru fengnir eftirlitsmenn til þess að hafa eftirlit með þeirri framkvæmd sem nú er í gangi og skal ég ekki gagnrýna það. En fyrst og fremst held ég að þetta sýni okkur að fleiri úrræði vantar til þess að Framkvæmdasýslan geti sinnt hlutverki sínu. Ýmislegt hefur farið úrskeiðis gegnum árin. Við getum nefnt Þjóðmenningarhús, Þjóðleikhús og Alþingishúsið, einmitt af því að ekki hefur verið farið að lögunum. Þau hafa heldur ekki verið nægjanlega skilvirk eða skýr varðandi ýmsa þætti. Þá er ég ekki síst að tala um frumathugun og áætlunargerð. Það sem menn gerðu varðandi þessi hús öll var að raunverulega var verið að hanna þetta allt saman á öllum framkvæmdatímanum. Það segir sig sjálft að þá fara mál úrskeiðis.

Ég vildi bara, herra forseti, láta það koma fram sem skoðun mína að mér finnst ósanngjarnt að kenna Framkvæmdasýslu ríkisins um, eins og hún eigi ein alla sök á því hvað fór úrskeiðis hér varðandi skrifstofuhúsnæðið. Ég held að Alþingi geti sjálft litið í eigin barm hvað það varðar og líka fjmrn. og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir sem, að ég best veit, gerði engar athugasemdir við það þó farið væri af stað með framkvæmdir við skrifstofuhúsnæðið, jafnvel þó hún væri ekki búin að gefa grænt ljós á það.