Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:11:39 (1441)

2001-11-12 17:11:39# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að ég hafi verið að varpa allri sök á Framkvæmdasýsluna vegna þeirra miklu mistaka sem gerð voru í fyrra. En hún á auðvitað stóran þátt í þeim mistökum. Það fer bara ekki fram hjá neinum sem vill kynna sér málið. Ég bendi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar, úttekt á þessu verki. Hver skyldi nú fá lægstu einkunnina þar? Skyldi það nokkuð vera Framkvæmdasýsla ríkisins?

Þar er líka svarað öllum þeim spurningum sem hv. þm. er að bera hér fram og svarar svona með kannski og ef. Þar getur hún séð svar við öllum þeim spurningum sem hún var að spyrja áðan.

Svo kom það náttúrlega einu sinni enn hjá hv. þm. sem hefur komið upp hér aftur og aftur í umræðunni hjá Samfylkingunni í sambandi við þetta mál, þ.e. að þetta sé húsnæði sjálfstæðismanna, skrifstofuhúsnæði Sjálfstfl. Það er alltaf látið skýrt koma fram. Það er verið að láta liggja að því að það sé eitthvert sukk þarna í kringum Sjálfstfl. Hvernig skyldi nú nýtingin vera á þessu húsi? Önnur hæðin er öll undir nefndir þingsins og móttöku fyrir gesti nefndanna. Þriðja hæðin er fyrir starfsmenn nefnda þingsins. Og jú, á fjórðu og fimmtu hæð eru skrifstofur þingmanna. Það vill svo til að það eru skrifstofur þingmanna Sjálfstfl. Eigum við að kíkja á reikningana þegar gert var upp húsnæði fyrir skrifstofur Samfylkingarinnar? Ekki mundi ég bera mér þau orð í munn að Samfylkingunni væri nokkuð um að kenna þó að þar hefði eitthvað farið úr böndunum varðandi kostnað. Þetta er afskaplega ómerkileg umræða og fólk á ekki að leggjast í svona klisjur.

Ég vil bara ítreka að við lærðum af þessum mistökum í fyrra, stöndum að þessu með allt öðrum hætti núna varðandi Skálann. Ég vil líka segja hv. þm. það að þegar við réðum þann ágæta verkfræðing sem núna er kominn til starfa og stendur sig vel þá var það hans fyrsta verk að fara yfir útboðsgögnin. Þá var búið að bjóða verkið út og hann fann mjög margar villur í útboðsgögnunum sem höfðu verið send út, svo margar að það varð að fresta opnun útboðanna um að ég held þrjár vikur frekar en tvær.