Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:18:03 (1444)

2001-11-12 17:18:03# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði nú verið gaman að fá hér efnislegar umræður við hv. þm. um ákvæði þessa frv. og hvernig hann lítur á stöðu mála og hvort hann telji allt í besta lagi varðandi þau lagaákvæði sem gilda um skipan opinberra framkvæmda eða hvort hann telji að eitthvað þurfi að laga. Ég held að flestir sem koma að þessu máli og þekkja til telji að marga brotalöm í lögunum sjálfum sem leitt hefur til þess að ekki er nægjanlega vel haldið á þessum málum. Það er einmitt það sem er verið að reyna að bæta með þessu frv.

Ég tek auðvitað eftir því að hv. þm. nefnir aldrei samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Hann svarar því ekki sem ég hélt fram, að farið hafi verið af stað með þessar framkvæmdir af hálfu þingsins áður en komið var grænt ljós frá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir um fjármagn til þessara framkvæmda.

Mér fannst líka gæta í orðum hv. þm. hugsunar sem ég get a.m.k. ekki tekið undir. Mér fannst að hann vildi að forsn. gæti staðið þannig að málum að hún þyrfti ekki að vera seld undir þessi lög eða Framkvæmdasýsluna. Ég vil vara við þeirri hugsun vegna þess að byggingar og framkvæmdir á vegum þingsins eiga auðvitað að lúta lögum um skipan opinberra framkvæmda eins og aðrar opinberar byggingar.

Ég held að það hafi einmitt verið partur af þessu leiðindamáli í kringum skrifstofuhúsnæðið í Austurstræti, að þingið vildi vera ríki í ríkinu og ekki fara að þeim ákvæðum sem þó eru í þessum lögum um skipan opinberra framkvæmda, sem er á margan hátt mjög ábótavant. Hins vegar er verið að reyna að bæta úr því með frv. sem hér hefur verið mælt fyrir.