Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:45:16 (1448)

2001-11-12 17:45:16# 127. lþ. 26.13 fundur 8. mál: #A stækkun friðlandsins í Þjórsárverum# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Einungis til að rúnna af þessa umræðu sem hér hefur orðið þá langar mig til að segja nokkur orð um það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vakti hér athygli á, þ.e. rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Það eru orð að sönnu að þar skorti samræmi, svo ekki sé meira sagt, því að auk þeirrar framkvæmdar sem hér hefur verið fjallað um, þ.e. Norðlingaöldumiðlun, eru á borðum Landsvirkjunar og í umhverfismatsferli áætlanir um Núpsvirkjun, um Urriðafoss, um Villinganesvirkjun, auk jarðvarmavirkjana sem komnar eru í matsferli. Síðan má nefna hugmyndir manna um Glámuvirkjun á Vestfjörðum og Kvíslaveitu 6. Allt eru þetta virkjanir og virkjanaáform sem að því er virðist eiga ekki að heyra undir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Af því að ég hafði ekki tækifæri til þess, herra forseti, að vera hér viðstödd þegar tillaga hv. þingmanna Samfylkingarinnar var lögð fram fyrir einhverjum dögum þá vildi ég bara að það kæmi fram hér að mín skoðun á þessum vinnubrögðum er sú að hér sé forkstanlega að verki staðið. Vinnubrögð af þessu tagi dæma sig sjálf og sýna fram á að ríkisstjórnin er þegar búin að ógilda eigin verk og öll þau áform sem hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa sagt að uppi væru með rammaáætluninni eru í besta máta skrum.

Ég vil sömuleiðis taka undir það að þó Þjórsárver eigi djúpar rætur í hjörtum Gnúpverja þá eiga þau að sjálfsögðu djúpar rætur í hjörtum allrar þjóðarinnar. Í ferðum þingmanna sem hafa verið svo heppnir að komast í Þjórsárver, höfum við fengið að reyna það á eigin skinni um hvílíka perlu hér er að ræða. Þó að hv. iðnn. hafi nú reyndar verið svo óheppin að hreppa þoku var hv. umhvn. afskaplega heppin með veður og gat komist langt inn í verin, alla leið upp undir jökul.

Varðandi verndargildi veranna og mögulega rýrnum þeirra og þá umræðu alla, að einhver áhöld skuli vera um að verndargildi veranna rýrni við mögulega Norðlingaöldumiðlun, þá verð ég bara að segja, herra forseti, að það er undarlegt að heyra í ráðamönnum og framkvæmdaraðilum þegar þeir fjalla um jafnviðkvæman stað og Þjórsárver. Þeir virðast halda að verndargildi sé flatarmálseining. Ég vil bara ítreka, herra forseti, að verndargildi er allt annað og á ekkert skylt við stærð flatarmáls lónanna sem fyrirhugað er að mynda.

Ég ítreka það hér að lokum, herra forseti, að ég þakka umræðuna og vona sannarlega að hv. umhvn. fjalli um þessa tillögu með opnum huga og að þetta verði ein af tillögum stjórnarandstöðunnar sem fær þá náð að koma aftur hingað inn í sali hins háa Alþingis svo hv. alþingismenn sjálfir eigi möguleika á að láta í ljósi skoðanir sínar á henni.