Almenn hegningarlög

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 18:25:35 (1451)

2001-11-12 18:25:35# 127. lþ. 26.15 fundur 22. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., DSn
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Drífa Snædal:

Herra forseti. Í því frv. sem er hér til umræðu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum frá 1940, með síðari breytingum frá 1992 og 1998 á viðkomandi greinum. Þegar gildandi greinar voru staðfestar var umhverfið allt annað en nú er við að etja. Alþjóðavæðing kláms, vændis og mansals hafði ekki borist til Íslands og umræða um þessi mál öll var á frumstigi. Orðfæri eins og lauslæti er úrelt og varfærnislegt miðað við þann vanda sem nú er við að etja.

Síðustu árin hafa komið fram óyggjandi sannanir þess að Ísland er enginn eftirbátur annarra landa varðandi ofbeldi gagnvart konum. Það nægir að vísa í skýrslur hæstv. dómsmrh. um lagaumhverfi á Íslandi varðandi eftirlit með klámi og vændi annars vegar og hins vegar um vændi á Íslandi. Eins og aðrir hefur lögreglan fylgst með vaxandi klámiðnaði í landinu en lagabókstafurinn veitir ekki þau tæki sem nauðsynleg eru til að takast á við þennan iðnað.

Þau vopn sem nú er hægt að beita eru t.d. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti frá 1993 og almenn hegningarlög, að stofni til frá 1940, en þau duga skammt í baráttunni. Það er því ekki síst löggæslan sem kallar á endurskoðun laganna.

Til að koma í veg fyrir það ofbeldi gegn konum sem vændi, klám og mansal er þarf að ráðast að rót vandans. Forsendur fyrir því að þetta tíðkist er sú neyð sem ýtir konum út í ógæfuna og sú eftirspurn sem virðist vera eftir kynlífsiðnaði hvers konar. Sú leið sem hv. þingkonur Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni leggja til að verði farin er tilraun til að ráðast að einni af undirrótum vandans, þ.e. eftirspurninni. Þarna er farin sænska leiðin en í henni felst að brotamennirnir eru kaupendur þjónustunnar, þeir sem skapa eftirspurnina og þeir sem hafa milligöngu um vændið. Þessi leið hefur gefist vel í Svíþjóð og þeir sem til þekkja mæla með henni sbr. ályktun frá ráðstefnu norrænna kvenna gegn ofbeldi hér á landi í ágúst sl.

Til að ná árangri í baráttunni gegn valdbeitingu og kúgun þarf lagaramminn að vera mjög skýr. Þau lönd sem hafa gert tilraunir með lögleiðingu vændis hafa svo sannarlega sopið seyðið af því enda vex ólögleg starfsemi í réttu hlutfalli við lögleiðingu. Þannig eru 80% af þeim sem stunda vændi í Hollandi konur sem hafa verið fluttar ólöglega og oft nauðugar til landsins samkvæmt tölum frá samtökum kvennaathvarfa í Svíþjóð.

Herra forseti. Ég held að okkur hafi flestum brugðið við þá mynd sem skýrslur hæstv. dómsmrh. drógu upp af ástandinu hér á landi. Þar var sagt frá skipulögðum vændishúsum, götuvændi og vændi sem tengist nektardansstöðum.

Ef við ætlum að vera trúverðug sem jafnréttissinnuð þjóð og virða þá alþjóðasáttmála sem við höfum þegar undirritað varðandi afnám misréttis og ofbeldis gagnvart konum þurfum við að byrja á því að taka til í lögunum okkar.

Með því að samþykkja þetta frv. viðurkennum við að vændi er ofbeldi gegn konum og þær sem stunda það eru fórnarlömbin.