Heilsuvernd í framhaldsskólum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 18:56:08 (1456)

2001-11-12 18:56:08# 127. lþ. 26.19 fundur 37. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., Flm. ÁMöl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heilsuvernd í framhaldsskólum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Þuríður Backman, Drífa Hjartardóttir, Tómas Ingi Olrich, Jónína Bjartmarz og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig skipulagðri heilsuvernd fyrir ungt fólk verði háttað.``

Þessi tillaga til þingsályktunar var flutt á 126. löggjafarþingi, en varð ekki útrædd. Hins vegar fór hún til nefndar og fékk ágæta umfjöllun hér í þinginu og góðar viðtökur. Hún var send ýmsum aðilum til umsagnar og er nú flutt að nýju óbreytt.

Sökum þess hve langt er liðið á daginn þá mun ég stytta mál mitt verulega en vísa til greinargerðarinnar um frekari rökstuðning fyrir þessari þáltill. Ég vil þó fjalla um tillöguna nokkrum orðum, eins stutt og hægt er.

Víða um hinn vestræna heim er viðurkennd þörf fyrir að koma til móts við heilbrigðisþarfir ungmenna í framhaldsskólum og háskólum með sérstakri skipulagðri heilsugæslu í þessum skólum. Slík þjónusta er hins vegar ekki veitt hér á landi með skipulegum hætti af hendi heilbrigðisyfirvalda. Nokkrir framhaldsskólar bjóða þó upp á ákveðna þjónustu, ýmist í samvinnu við heilsugæslustöðvar á viðkomandi svæði með sérstökum samningum við einstaka heilbrigðisstarfsmenn eða að hjúkrunarfræðingar sem starfa sem kennarar í viðkomandi skóla hafa tekið að sér slíka þjónustu. Frumkvæðið að þessari heilsuvernd hefur ýmist komið frá skólakerfinu eða heilsugæslunni. Hins vegar hefur ekki verið mótaður sérstakur rammi um þessa þjónustu. Henni hefur ekki verið sett markmið né hefur hún verið samræmd og ekki gert sérstaklega ráð fyrir slíkri þjónustu í fjárveitingum til heilsugæslunnar eða til framhaldsskólanna sjálfra.

Þó er kveðið á um það í 13. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, að allir framhaldsskólar skuli rækja heilsuvernd. Samkvæmt þessum lögum er heilsugæslustöð í nágrenni skólans falið að annast heilsuverndina undir umsjón héraðslækna í umboði heilbrigðisstjórnar. Starfsfólki við heilsuvernd í skólum er gert skylt að hafa náið samstarf við skólameistara um framkvæmdina.

Í nokkrum tilvikum hefur heilsugæslustöð í nágrenni framhaldsskóla eða aðrir aðilar annast takmarkaða heilsugæslu nemenda, t.d. hefur heilsugæslan á Egilsstöðum sérstaklega sinnt heilsugæslu ungmenna sem þurfa á henni að halda. Það er mat þeirra sem hafa sinnt þessu starfi að það hafi skipt sköpum varðandi námsframvindu og líðan margra nemenda. Aðrir skólar eins og Verkmenntaskólinn á Akureyri, Fjölbrautaskólinn í Ármúla, Verslunarskóli Íslands og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hafa einnig séð nemendum sínum fyrir heilbrigðisþjónustu innan veggja skólans. Fyrir liggja góðar vísbendingar um ávinning af slíku starfi í þeim skólum. Því til viðbótar má nefna að heilsugæslustöðvarnar að Sólvangi í Hafnarfirði og Akureyri settu á árinu 2000 á laggirnar unglingamóttökur sem eru opnar 1--2 tíma í viku og starfa á svipaðan hátt og skólaheilsugæslur í framhaldsskólum en veita breiðari hópi unglinga þjónustu, svo sem þeim sem eru ekki í framhaldsskóla.

Ég vil jafnframt benda á að í skýrslu starfshóps landlæknis frá í maí 2000 um börn og ungmenni með geðræn vandamál og þjónustu við þau utan sjúkrastofnana er lögð áhersla á að auka heilbrigðisþjónustu við nemendur framhaldsskólanna, sérstaklega með tilliti til geðverndar og geðheilbrigðisþjónustu. Jafnframt er bent á úrræði sérstakra unglingamóttökustöðva sem sérsniðnar eru fyrir þarfir og vandamál unglingsáranna.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eru um það bil 22 þús. Íslendingar á aldrinum 16--20 ára og um það bil 90% þeirra eru í framhaldsskólum. Hins vegar verður einnig að líta til þess að brottfall nemenda í framhaldsskólum er töluvert og mikið áhyggjuefni. Það er talið eitt af alvarlegustu vandamálum innan menntakerfisins. Þó að erfitt sé að segja til um hve mikið brottfallið er þá er ljóst að þeir krakkar sem ná ekki að útskrifast með skírteini standa frammi fyrir ýmsum erfiðleikum, gætu þurft að sætta sig láglaunastörf, einmanaleika, vonleysi og hugsanlega atvinnuleysi. Það er talið að stuðningur foreldra og stuðningur við nemendur innan veggja skólans skipti mestu um það hvort ungmenni nái að ljúka framhaldsskóla.

Einnig hef ég séð vísbendingar um það út frá rannsóknum að ungt fólk nýti sér síður heilbrigðisþjónustu en fólk í öðrum aldurshópum. Ýmsar vísbendingar eru um að það þurfi sérstaklega að sníða þjónustuna að þörfum þeirra. Þar á meðal hafa íslenskar rannsóknir bent til þessa. Í nýlegri rannsókn um aðgang að heilbrigðisþjónustu á Íslandi segir m.a., með leyfi forseta:

,,... að mikilvæg leið fyrir heilsugæsluna til að nálgast ungmennin sé í gegnum skólana. Hér hefur Ísland þá sérstöðu í samanburði við mörg nágrannalönd, að ekki er boðið upp á nemendaheilsugæslu á framhaldsskóla- eða háskólastigi ... Eðlilegt er að hérlendis fari fram skipuleg athugun á því hvort og með hvaða hætti reglubundin heilsugæsla í framhaldsskólum og háskólum landsins geti verið fýsilegur kostur.``

Þessi þáltill. sem ég mæli nú fyrir er einmitt til þess að bregðast við þessari þörf. Í greinargerð með þáltill. er gerð grein fyrir ýmsum rannsóknum um heilsufar íslenskra ungmenna og ég mun ekki fara sérstaklega í það en vísa í greinargerðina. Þessi þáltill. var send til umsagnar ýmissa aðila og það voru milli 20--30 aðilar sem gáfu umsögn. Hún fékk mjög góðar viðtökur og mælt var með samþykkt hennar. Í umsögn Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi segir m.a. að í ljósi þess vanda sem til umfjöllunar er í tillögu um heilsuvernd í framhaldsskólum, svo sem áföll, þunglyndi og sjálfsvíg, kvíði og afkastavandi, ofbeldi, ofneysla vímuefna og önnur áhættuhegðun sé ljóst að þjónusta í seilingarfjarlægð skólans sé mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustuneti samfélagsins. Eins er talið að tillagan sé í raun ábyrg tilraun til að brúa bilið milli fræðslu-, félags- og heilbrigðisþjónustu.

Sem fylgiskjal með þáltill. er lýsing á heilsuverndarstarfi sem hefur verið þróað og unnið í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ frá 1989. Þessi lýsing fylgdi umsögn Læknafélags Íslands og Félags ísl. heimilislækna um heilsuvernd í framhaldsskólum og er þar mjög greinargóð lýsing á því hvernig heilsugæsla í framhaldsskólum getur farið fram.

Að lokum legg ég til að að lokinni umræðu verði þáltill. þessi send til heilbr.- og trn. til umfjöllunar.